Skoðun

Ólíkt hafast ráðherrar að …

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Fréttir hafa birst um að Íbúðalánasjóður hyggist selja um 300 íbúðir í eigu sjóðsins á SV-horninu til sveitarfélaga. Íbúðirnar, sem sjóðurinn leysti til sín á sínum tíma, eru í útleigu. Margir leigjendur þessara íbúða er fólk sem átti þær áður, en hefur fengið að leigja þær af Íbúðalánasjóði á viðráðanlegu verði eftir að sjóðurinn leysti íbúðirnar til sín í kjölfar efnahagshrunsins. Margir leigjendur þessara íbúða hafa hærri tekjur en þröng tekjumörk sveitarfélaga setja til að mega leigja félagslegt húsnæði (m.v. 240 þúsund krónur brúttó á mánuði).

Ef leigjendur þessara íbúða missa þennan leigusamning eru þeir settir í óvissu á leigumarkaði sem einkennist af skömmum leigutíma og háu leiguverði. Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra hefur beðið Íbúðalánasjóð að bíða með að selja íbúðirnar meðan unnið er að lausn þeirra leigjenda sem búa í íbúðunum. Ég styð þessa beiðni Þorsteins. Ein tillaga að úrlausn er að setja á laggirnar sérstakt opinbert leigufélag sem tekur yfir þessar eignir og heldur áfram að leigja þær út til þeirra sem vilja, til langs tíma og óháð tekjum.

Á sínum tíma starfaði leigufélagið Klettur, sem var í eigu Íbúðalánasjóðs, sem leigði fólki óháð tekjum til langs tíma á viðráðanlegu verði og veitti 450 fjölskyldum skjól og öryggi. Leigufélagið Klettur var selt til leigufélags í eigu Gamma og leigjendur sem bjuggu áður við langtímaleigu og viðráðanlegt leiguverð þurftu að greiða 40-50% hærri leigu í skilyrtan leigutíma, eða til eins árs í senn.

Leigufélagið Klettur var selt í ráðherratíð ­Eyglóar Harðardóttur sem gerði lítið sem ekkert til að koma í veg fyrir söluna eða leita annarra lausna og jók því húsnæðisvanda fólks sem áður leigði hjá leigufélaginu. Það ber að hrósa Þorsteini fyrir þá viðleitni að verja hagsmuni leigjenda og leita lausna í stað þess að selja ofan af þeim heimili þeirra.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×