Fótbolti

Freyr: Liðið höndlaði vonbrigðin eftir laugardaginn mjög illa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson þakkar fyrir stuðninginn eftir leik.
Freyr Alexandersson þakkar fyrir stuðninginn eftir leik. Vísir/Getty
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var afar ósáttur með frammistöðuna í 0-3 tapinu fyrir Austurríki í kvöld. Þetta var síðasti leikur Íslands á EM en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu.

„Þetta var mjög vont og óþægilegt frá fyrstu mínútu. Við löguðum hlutina í hálfleik. Það kom ekkert á óvart í þessum leik, ekki nokkur einasti hlutur. Við reyndum bara að fá fólk til að slaka aðeins á og spila boltanum. Það lagaðist í svona 20-25 mínútur. Það er erfitt að spila við þær. Þegar þær komust á okkar helming héldu þær okkur þar í langan tíma og eru svo stórhættulegar í teignum,“ sagði Freyr í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leik.

Að sögn Freys höndluðu leikmenn íslenska liðsins vonbrigðin eftir tapið fyrir Sviss á laugardaginn illa.

„Þetta var mjög erfitt og ég vissi að ef við myndum lenda undir í þessum leik yrði þetta mjög erfitt. Liðið höndlaði vonbrigðin vonbrigðin eftir laugardaginn mjög illa, hvað andlega þáttinn varðar,“ sagði Freyr en var of mikil pressa á íslenska liðinu að vinna leikinn í kvöld?

„Nei, það held ég ekki. Ég held að það skipti ekki nokkru máli. Það var eitthvað sem fór úr sambandi við pressuna. Þær eru búnar að vera í fótbolta síðan þær voru litlar stúlkur og það er alltaf sama krafan, hvort sem þú ert að spila á Pæjumótinu í Vestmannaeyjum eða EM. Þú ferð í leikinn til að vinna. Aðal krafan var að skila fínni frammistöðu og það var svekkjandi að þær gátu ekki gert það,“ sagði Freyr.

Taflan lítur ekki vel út fyrir íslenska liðið. Það tapaði öllum þremur leikjum sínum á EM, skoraði aðeins eitt mark og fékk á sig sex. Liggur það þá ekki ljóst fyrir Ísland er með lélegasta liðið í riðlinum?

„Ég veit það ekki. Taflan lýgur ekki. Þetta er hraðmót og stemmningin er fljót að koma og fara. Það er samt margt sem þarf að laga og eitthvað sem tekur tíma að laga; grunnfærnin, sendingar, móttökur. Mér finnst það áhyggjuefni. Þeir hlutir klikkuðu hérna í dag. Lélegasta liðið í riðlinum? Ég veit það ekki. Það er svo ógeðslega stutt á milli. Við hefðum alveg eins getað verið með 3-4 stig fyrir þennan leik, eins og Austurríki. Svo vorum við ekki í lagi andlega í þessum leik, það er klárt mál. Þetta var ekkert eðlilega lélegt framan af,“ sagði Freyr sem sá óveðursskýin hrannast upp í gær.

„Ég fann það í gær. Æfingin í gær var sú lélegasta sem ég hef séð. Ég fann að liðið var ekki að höndla þetta. Við gerðum allt til að hjálpa þeim og halda utan um þær. Ég get alveg lofað þér því.“

Freyr viðurkennir að hafa ekki verið búinn undir þá stöðu að Ísland væri úr leik eftir fyrstu tvær umferðirnar í riðlakeppninni.

„Eitt af því sem ég læri af þessu móti er að sem þjálfari hugsar þú um stöður sem geta komið upp. Ein af þeim var þessi, að vera úr leik eftir tvo leiki. Ég var ekkert búinn að undirbúa mig undir það. Auðvitað vissi ég að það gæti gerst en að liðið færi svona langt niður, svona hratt, óraði mig ekki fyrir. Ég verð að vera alveg hreinskilinn með það,“ sagði Freyr að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×