Erlent

Einn lést er farþegar köstuðust úr tæki á skemmtun í Ohio

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþegum sem setjast í tækið er sveiflað fram og til baka auk þess sem þeir snúast í hringi á miklum hraða.
Farþegum sem setjast í tækið er sveiflað fram og til baka auk þess sem þeir snúast í hringi á miklum hraða. Vísir/Getty
Einn er látinn og nokkrir særðir eftir að slys varð í tæki á skemmtun í Ohio-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Fólk, sem sótt hafði skemmtunina, kastaðist úr tækinu með þeim afleðingum að einn lést og sjö særðust. Ástand þriggja hinna særðu er sagt alvarlegt, að því er segir í frétt Breska ríkisútvarpsins.

Ríkisstjóri Ohio, John Kasich, staðfesti við fjölmiðla að einn hefði látið lífið en hann fyrirskipaði að öllum tækjum á skemmtuninni, sem er afar fjölsótt á ári hverju, yrði lokað þangað til að frekari skoðanir á þeim færu fram.

Svokallaðar „ríkisskemmtanir“ (State fair) eru haldnar víða í Bandaríkjunum. Þar kemur iðulega fjöldi fólks saman og hlýðir á tónlist, gæðir sér á alls kyns mat og fer ferðir í tækjum. Tækið sem olli slysinu er kallað „Eldhnöttur“ (Fireball) en því svipar til pendúls. Farþegum sem setjast í tækið er sveiflað fram og til baka auk þess sem þeir snúast í hringi á miklum hraða.

Læknir á svæðinu sagði fórnarlömbin hafa kastast úr tækinu og skollið í jörðina í töluverðri fjarlægð frá upphafspunkti.

Einn hinna særðu er talinn vera 13 ára og þá hafa fjölmiðlar á svæðinu flutt fréttir af því að hinn látni hafi verið 18 ára.  

Samkvæmt frétt The Columbus Dispatch höfðu allt að þrjár til fjórar öryggisskoðanir verið gerðar á tækinu fyrr í þessari viku.

Hér að neðan má sjá umfjöllun á vegum AP-fréttaveitunnar um slysið en í því eru myndir og myndbönd frá vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×