Erlent

Trump eignar sér „stórkostlega fjárfestingu“ Foxconn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Terry Gou aðalframkvæmdastjóri Foxconn á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Terry Gou aðalframkvæmdastjóri Foxconn á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. Vísir/AFP
Taívanski raftækjaframleiðandinn Foxconn hefur tilkynnt um fjárfestingaráætlanir sínar í Bandaríkjunum. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að fjárfesta tíu milljörðum Bandaríkjadala í nýrri verksmiðju en Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði viðskiptin háð því að hann hefði náð kjöri í forsetakosningunum í nóvember.

Verksmiðjan verður staðsett í Wisconsin-ríki en talið er að hún muni framleiða LCD-skjái. Búist er við því að um þrjú þúsund manns fái vinnu við framleiðsluna.

Terry Gou, aðalframkvæmdastjóri Foxconn, tilkynnti um ráðahaginn á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington í gær. Hann tjáði sig þó ekki um hvenær bygging verksmiðjunnar hæfist eða hvar í Wisconsin hún yrði byggð.

Aldrei orðið af viðskiptunum hefði Trump ekki náð kjöri

Donald Trump Bandaríkjaforseti eignaði sér heiðurinn af hinni „stórkostlegu fjárfestingu“ Foxconn en hann sagði að aldrei hefði orðið af viðskiptunum hefði hann ekki náð kjöri.

„Gou lagði traust sitt og trú á framtíð bandaríska hagkerfisins og þannig gerði hann svo stórkostlega fjárfestingu,“ sagði Donald Trump er hann ávarpaði blaðamannafundinn í gær.

„Með öðrum orðum, ef ég hefði ekki náð kjöri, þá væri hann ábyggilega ekki að eyða tíu milljörðum.“

Foxconn er einn stærsti raftækjaframleiðandi í heimi og hefur starfað með fyrirtækjum á borð við Apple, Tesla og BMW. Það hefur um eina milljón starfsmanna á sínum snærum en um þrjú þúsund þeirra starfa nú í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×