Enski boltinn

Manchester City lék sér að Real Madrid í Los Angeles

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Táningurinn Brahim Diaz fagnar markinu sínu.
Táningurinn Brahim Diaz fagnar markinu sínu. Vísir/Getty
Manchester City er greinilega komið í gírinn fyrir leik sinn á Laugardalsvöllinn í næstu viku en liðsmenn Pep Guardiola fóru illa með Evrópumeistara Real Madrid í æfingaleik í Los Angeles í Bandaríkjunum í nótt.

93 þúsund manns sáu þá Manchester City vinna sinn fyrsta sigur á undirbúningstímabilinu en leikurinn var hluti af alþjóðlega æfingamótinu International Champions Cup. City vann Real Madrid 4-1.

Mörk Manchester City skoruðu þeir Nicolas Otamendi, Raheem Sterling, John Stones og hinn sautján ára gamli Brahim Diaz.

Brasilíumaðurinn Danilo spilaði sinn fyrsta leik með Manchester City en nýjasti meðlimurinn, Benjamin Mendy, verður hinsvegar frá í tvær til þrjár vikur. City keypti Mendy á 52 milljónir punda frá Mónakó á dögunum en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola vill ekki taka neina áhættu með hann.

Belginn Kevin de Bruyne lagði upp þrjú af fjórum mörkum Manchester City í leiknum. Hann lagði upp mörkin fyrir Sterling, Stones og Diaz en ungi strákurinn skoraði mjög laglegt mark.

Staðan var markalaus í hálfleik en Manchester City skoraði mörkin sín frá 52. til 81. mínútu. Oscar Rodriguez minnkaði muninn fyrir Real Madrid undir lokin.

„Ef við spilum með svona ákefð þá getum við keppt við alla. Það er okkar draumur,“ sagði Pep Guardiola eftir leikinn.

Guardiola staðfesti eftir leikinn að Spánverjinn David Silva verði klár fyrir fyrsta leik tímabilsins sem verður á móti Brighton 12. ágúst næstkomandi.

Áður en að honum kemur munu leikmenn Manchester City spila við Tottenham í Nashville á laugardaginn og stoppa svo á Íslandi og spila við West Ham á Laugardalsvellinum. Super Match fer fram á þjóðarleikvanginum föstudaginn 4. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×