Enski boltinn

Mourinho: Mikilvægt fyrir okkur að tapa þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og Lionel Messi fagna sigurmarki þess fyrrnefnda í nótt.
Neymar og Lionel Messi fagna sigurmarki þess fyrrnefnda í nótt. Vísir/Getty
Barcelona vann 1-0 sigur á Manchester United í Washington í nótt en þetta var síðasti leikur enska liðsins í alþjóðlega æfingamótinu International Champions Cup.

Barcelona á eftir að mæta Real Madrid í Miami áður en liðið snýr aftur til Spánar til að ljúka undirbúningi sínum fyrir komandi keppnistímabil.

Eina mark leiksins skoraði Brasilíumaðurinn Neymar á 31. mínútu leiksins. Neymar lék bara fyrri hálfleikinn en hann skoraði sigurmarkið eftir varnarmistök Antonio Valencia.

Neymar hefur verið orðaður við franska liðið Paris Saint-Germain sem er tilbúið að borga Barcelona 222 milljónir evra fyrir hann eða upphæðina sem þarf til að kaupa upp samning Brasilíumannsins og Börsunga.

Barcelona átti möguleika á því að skora mun fleiri mörk í fyrri hálfleiknum en David de Gea, markvörður Manchester United, varði margoft vel í markinu.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, talaði um það eftir leikinn að það hafi verið mikilvægt fyrir hans lið að tapa þessum leik.

„Ég tel að það hefði verið mjög slæmt fyrir okkur að snúa taplausir heim frá Bandaríkjunum. Við erum búnir að mæta liðum eins og Real Madrid, Barcelona og Manchester City. Það hefði verið afar slæmt að koma heim með ekkert nema sigra,“ sagði Mourinho.

Manchester United á eftir tvo leiki á undirbúningstímabilinu en liðið mætir norska liðinu Valerenga á sunnudaginn og spilar svo síðasta æfingaleikinn við Sampdoria í Dublin á Írlandi á miðvikudaginn kemur.

Manchester United mætir síðan Evrópumeisturum Real Madrid í Súperbikar UEFA 8. ágúst en það er árlegur leikur milli liðanna sem vinna Meistaradeildina og Evrópudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×