Enski boltinn

Conte efast um metnað Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea. Vísir/Getty
Chelsea og Tottenham voru í titilbaráttu í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem Chelsea hafði betur. Chelsea sló Tottenham einnig út úr undanúrslitum ensku bikarkeppninnar. Nú hefur knattspyrnustjóri ensku meistaranna í Chelsea ýjað að metnaðarleysi hjá nágrönnunum sínum í Tottenham.

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, telur nefnilega að það séu gerðar minni væntingar til Tottenham-liðsins en til annarra liða í toppbaráttunni.

Totttenham hefur verið rólegt á félagsskiptamarkaðnum í sumar á meðan hin stóru liðin í kringum þau í stigatöflunni á síðasta tímabili hafa safnað að sér leikmönnum.

„Það er enginn harmleikur þótt að Tottenham vinni ekki titilinn,“ sagði Antonio Conte í viðtali við BBC.

„Það er enginn harmleikur þótt þeir komist ekki í Meistaradeildina eða þá að þeir detti út í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það er heldur enginn harmleikur þótt þeir detti síðan út í fyrstu umferð útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar,“ sagði Conte.

„Kannski fyrir félög eins og Chelsea, Arsenal, Manchester City, Manchester United og jafnvel Liverpool, þá væri slíkt harmleikur. Við verðum bara að átta okkur á stöðu liðanna,“ sagði Conte.

Chelsea fékk sjö stigum meira en Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Öll félög verða átta sig á því hvar metnaður þeirra liggur. Ef metnaður þeirra liggur í því að berjast um titla eða vinna Meistaradeildina þá þurfa þessi félög að kaupa dýra leikmenn. Án þess verða þau bara áfram á sínum stað. Þetta er einfalt,“ sagði Conte.

Eina sem hefur gerst hjá Tottenham á félagsskiptamarkaðnum í sumar er að félagið seldi landsliðsbakvörðinn  Kyle Walker til Manchester City fyrir 45 milljónir punda.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa eytt meira en 850 milljónum punda í leikmenn í sumar. Chelsea hefur borgað um 130 milljónir punda fyrir þrjá leikmenn eða þá Alvaro Morata, Tiemoue Bakayoko og Antonio Rudiger.

Tottenham hefur lagt það í vana sinn að kaupa leikmenn seint í félagsskiptaglugganum en undanfarin ár hafa nýir menn verið að detta inn í ágúst. Það gæti vel verið að svo verði einnig nú. Hver veit nema þessi orð Conte komi einhverju á hreyfingu.

Antonio Conte með Mauricio Pochettino, stjóra Tottenham.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×