Erlent

Uppstokkun í sænsku ríkisstjórninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekkert fararsnið er á Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þrátt fyrir hneykslismál.
Ekkert fararsnið er á Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þrátt fyrir hneykslismál. Vísir/AFP
Sænska ríkisstjórnin mun sitja áfram þó að tveir ráðherrar hennar sem báru ábyrgð á klúðri með útvistun tölvukerfis ríkisstofnunar hverfi á braut. Stefan Löfven, forsætisráðherra, tilkynnti um þetta á blaðamannafundi í morgun.

Minnihlutastjórn Löfven hefur verið sögð riða til falls vegna hneykslismálsins. Viðkvæm persónugreinanleg gögn samgöngustofnunar Svíþjóðar voru aðgengileg óviðkomandi aðilum eftir klúður við útboð og útvistun á rekstri tölvukerfis þess.

Stjórnarandstaðan lagði í gær fram vantrauststillögu á hendur Önnu Johansson, innviðaráðherra, Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, og Anders Ygeman, innanríkisráðherra,

„Ég ætla ekki að steypa Svíþjóð út í stjórnarkreppu,“ sagði Löfven við upphaf blaðamannafundarins í morgun þar sem hann kynnti breytingar á ríkisstjórninni, að því er kemur fram í beinni lýsingu sænska ríkisútvarpsins SVT.

Tveir segja af sér, einn stígur til hliðar vegna heilsufarsástæðna

Tilkynnti hann að þrír ráðherrar hverfi úr stjórninni en þrír nýir taka sæti í henni og sá fjórði færir sig á milli ráðuneyta. Ygeman segir hann láta af ráðherraembætti að eigin ósk. Hann tekur við sem þingflokksformaður sósíaldemókrata í sænska þinginu. Við sæti hans tekur Morgan Johansson.

Thomas Eneroth, sósíaldemókrati, tekur við sem innviðaráðherra af Önnu Johansson. Hann hefur verið þingflokksformaður flokksins.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar tilkynntu um að þeir hygðust leggja fram tillögu að vantrausti á þrjá ráðherra. Tveir þeirra hafa nú sagt af sér.Vísir/EPA
Hultqvist ætlar að hins vegar að sitja áfram sem varnarmálaráðherra en Löfven sagði ekki rétt að draga hann til ábyrgðar fyrir klúðrið með samgöngustofnunina.

„Ég er ennþá tilbúinn að axla ábyrgð sem varnarmálaráðherra,“ sagði Hultqvist á blaðamannafundinum.

Gabriel Wikström, lýðheilsuráðherra, hefur óskað eftir að láta af embætti af heilsufarsástæðum.

Annika Strandhäll, sósíaldemókrati, verður nýr félagsmálaráðherra og Heléne Fritzon verður innflytjendamálaráðherra.


Tengdar fréttir

Hneyksli vegna ríkisleyndarmála skekur sænsku ríkisstjórnina

Ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni eru sagðir valtir í sessi vegna klúðurs þegar rekstur tölvukerfis samgöngustofnunarinnar var boðinn út. Viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar voru aðgengilegar starfsmönnum fyrirtækisins sem fékk samninginn þó að þeir hefðu ekki öryggisheimild til þess.

Sænska stjórnarandstaðan krefst afsagnar ráðherra

Þrír ráðherrar í minnihlutastjórn Stefans Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar eiga yfir höfði sér vantraust á þingi vegna hneykslismál sem varðar gagnaöryggi ríkisins. Stjórnin gæti jafnvel riðað til falls verði vanstrauststillaga stjórnarandstöðunnar samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×