Erlent

Helmingi minni sæðisframleiðsla hjá karlmönnum á Vesturlöndum nú en fyrir 40 árum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki er vitað hvað veldur minni sæðisframleiðslu hjá karlmönnum á Vesturlöndum.
Ekki er vitað hvað veldur minni sæðisframleiðslu hjá karlmönnum á Vesturlöndum. vísir/getty
Helmingi minni sæðisframleiðsla er hjá karlmönnum á Vesturlöndum nú en fyrir 40 árum ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtar voru í vísindatímaritinu Human Reproduction Update á dögunum. Fjallað er um rannsóknina á vef breska blaðsins Guardian en þar kemur fram að ástæðan fyrir minni sæðisframleiðslu sé óljós.

Rannsóknin tók til áranna 1973 til 2011 og sýnir að það sæði sem karlmenn á Vesturlöndum framleiða hefur minnkað að meðaltali um 1,4 prósent á ári sem gerir helmingi minni framleiðslu á tímabili, eða um 52 prósent.

„Þessar niðurstöður eru nokkuð sláandi,“ segir Hagai Levine, sóttvarnalæknir og aðalhöfundur rannsóknarinnar en hann starfar sem fræðimaður við Hebrew University í Jerúsalem.

Levine segir að lítið hafi verið rætt um þetta heilsufarsvandamál þótt augljóst sé að það hafi farið vaxandi á undanförnum áratugum. Þá bendir hann á að lítið hafi verið gert til að ráðast að rót vandans en hugsanlega gæti minni sæðisframleiðsla bent til að heilsu vestrænna karlmanna sé almennt að hraka.

Þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem sýnir þessar niðurstöður en fyrri rannsóknir hafa verið nokkuð gagnrýndar þar sem ýmsir hafa bent á að ástæðan fyrir því að niðurstöður sýni minni sæðisframleiðslu vegna mismunandi aðferða á rannsóknarstofum eða að rannsóknir hafi ekki tekið inn í myndina hvort að þátttakendur hafi verið valdir vegna ófrjósemisvandamála.

Þeir sem standa að þessari rannsókn nú segja hins vegar að þeir hafi tekið tillit til allra þessara þátta. Levine segir að nú þurfi að rannsaka hvað veldur því að karlmenn á Vesturlöndum framleiða minna af sæði en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×