Innlent

Skjálftahrinan á Reykjanesskaga ekki óvenjuleg á neinn hátt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði.
Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði. vísir/Arnar Halldórsson
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að skjálftahrinan sem hófst á Reykjanesskaga í gær og stendur enn yfir sé ekki óvenjuleg á neinn hátt heldur sé þetta klassísk skjálftahrina á skaganum. Hundruð skjálfta hafa mælst í hrinunni.

Hann segir að skjálftarnir í hrinunni nú séu ekki stórir þó einhverjir mælist 4 að stærð og finnist víða á Suðvestur-og Vesturlandi.

Hrinan er á flekaskilum Norður-Ameríku-flekans og Evrasíu-flekans en skilin liggja eftir endalöngum Reykjanesskaga. Skjálftarnir verða vegna flekahreyfinga.

„Þetta er bara klassísk Reykjanesskaga-skjálftahrina. Svona hrinur ganga yfir með millibili og gengur virknin yfir í hviðum að er virðist með 20 til 30 ára millibili. Þá eru margar hrinur í hverri hviðu. Það var til dæmis hviða af svona skjálftahrinum sem gekk yfir 1967 til 1975 og þá fóru skjálftar upp í sex stig. Sá stærsti varð1968 en á þessu tímabili voru allmargar hrinur í líkingu við þessa,“ segir Páll í samtali við fréttastofu.

Í kjölfarið á Suðurlandsskjálftanum árið 2000 hófst svo önnur hviða á Reykjanesskaganum.

„Stærsti skjálftinn þá varð undir Kleifarvatni. Margir kannast við hann því hann varð nánast samtímis öðrum Suðurlandsskjálftanum það ár og var svörun við honum að mörgu leyti. Það gæti svo verið að nú sé ný hviða í uppsiglingu,“ segir Páll.

Snarpur skjálfti varð einnig í Kötlu í gærkvöldi að stærð 4,5. Páll segir hann sé að sumu leyti óvenjulegri skjálfti.

„Þetta er með stærri skjálftum sem hafa komið í Kötlu í seinni tíð. Við þekkjum stærri skjálfta í Kötlu, sá stærsti varð 1977, en þessi er innan öskjunnar og tengist þeim umbrotum sem eru í fjallinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×