Lífið

Justin Bieber keyrði á ljósmyndara

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Justin Bieber spilaði á tónleikum til styrktar fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar í Manchester sem framin voru í maí síðastliðnum.
Justin Bieber spilaði á tónleikum til styrktar fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar í Manchester sem framin voru í maí síðastliðnum. Vísir/Getty
Poppstjarnan Justin Bieber keyrði á ljósmyndara í gærkvöldi í Los Angeles í Kaliforníu. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús vegna minniháttar áverka en lögregla segir ákeyrsluna óviljaverk.

Í myndbandi, sem birtist á vefsíðu ABC-fréttastofunnar, sést Bieber koma út úr húsi og fara inn í stóran pallbíl. Í kringum pallbílinn er fjöldi ljósmyndara en þegar Bieber keyrir af stað stígur einn ljósmyndaranna í átt að bílnum og verður fyrir öðru framhjólinu.

Í öðru myndbandi sést Bieber krjúpa hjá manninum, þar sem hann liggur í jörðinni, og spyrja hvort manninn vanti eitthvað.

Þá hafa myndir af Bieber ræða við lögreglu verið birtar en hann er sagður hafa verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Söngvarinn var frjáls ferða sinna eftir atvikið en það er ekki talið munu draga dilk á eftir sér fyrir hann.

Nýlega tilkynnti Bieber að hann hygðist aflýsa öllum tónleikum sem eftir væru af Purpose-tónleikaferðalaginu. Enn hafa ekki fengist nákvæmar skýringar á því af hverju Bieber aflýsti tónleikaferðalaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×