Fótbolti

Eder afgreiddi Bayern | Erfið Asíuför fyrir Þjóðverjana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eder skoraði tvö mörk fyrir Internazionale á móti Bayern.
Eder skoraði tvö mörk fyrir Internazionale á móti Bayern. Vísir/Getty
Ítalski Brasilíumaðurinn Eder skoraði bæði mörk ítalska liðsins Internazionale í 2-0 sigri á Bayern München í alþjóðlega æfingamótinu International Champions Cup.

Liðin mættust á Þjóðarleikvanginum í Singapúr eða á sama velli og Bayern vann 3-2 sigur á Chelsea fyrir aðeins tveimur dögum síðan.

Eder skoraði mörkin sín í fyrri hálfleiknum og komu þau bæði með skalla. Það fyrra skoraði hann á áttundu mínútu eftir fyrirgjöf frá Antonio Candreva og það seinna á 30. mínútu eftir fyrirgjöf Króatans Ivan Perisic.

Eder er þrítugur, fæddur og uppalinn í Brasilíu en hefur búið á Ítalíu frá 2006 og er með ítalskt ríkisfang.

Eder er að fara að hefja sitt þriðja tímabil með Internazionale en hann skoraði 8 mörk í 32 leikjum í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð.

Bayern München er nú á heimleið frá Asíu en liðið tapaði þremur af fjórum æfingaleikjum sínum.  Í viðbót fór Frakkinn Franck Ribéry meiddur af velli eftir aðeins hálftíma leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×