Enski boltinn

Skellur á móti Norðmönnum og strákarnir enda í 12. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk alltof lítið upp hjá strákunum í síðustu þremur leikjum.
Það gekk alltof lítið upp hjá strákunum í síðustu þremur leikjum. Mynd/Instagram-síða HSÍ
Íslenska 21 árs landsliðið tapaði í dag fyrir Noregi í leiknum um 11. sætið á HM 21 árs landsliða í Alsír. Þetta var þriðja tap íslensku strákanna í röð á mótinu.

Norðmenn höfðu mikla yfirburði í leiknum og unnu á endanum sex marka sigur, 33-27, eftir að hafa komist mest ellefu mörkum yfir.

Íslenska liðið vann fjóra fyrstu leikina á mótinu en síðan fylgdu þrjú töp, fyrst 29-26 á móti Króatíu í lokaleik riðilsins, þá 28-27 á móti Túnis í 16 liða úrslitunum og svo á móti Noregi í dag.

Svíar unnu á sama tíma 33-21 sigur á Færeyjum í leiknum um 15. sætið á mótinu.

Lítið var um varnarleik og markvörslu í upphafi leiks, hjá báðum liðum. Eftir 10 mínútur var staðan 7-7. Þá náðu Norðmenn 4-0 kafla á næstu fimm mínútum og breyttu stöðunni í 7-11.

Íslensku þjálfararnir tóku leikhlé og Einar kom í markið fyrir Viktor. Einar byrjaði á að verja og skora mark þvert yfir völlinn sem virtist ætla að kveikja aðeins í strákunum okkar.

Norðmenn bættu hinsvegar aftur í og voru komnir fimm mörkum yfir á 23. mínútu, 10-15. Þá tók Ísland aftur leikhlé sem virtist bara hafa þveröfug áhrif og Norðmenn bættu áfram í.

Staðan í hálfleik 12-20 eftir vondan fyrri hálfleik.

Norðmenn náðu mest ellefu marka forustu í seinni hálfleiknum og Ísland náði aldrei að minnka forskot Norðmanna í minna en sex mörk. Eftir 40 mínútna leik var staðan 17-25 fyrir Norðmenn og staðan var 20-28 eftir 50 mínútur. Þegar upp var staðið munaði sex mörkum á liðunum og sanngjarn 27-33 sigur Norðmanna staðreynd.

Ísland hefur nú lokið leik á heimsmeistaramótinu og er tólfta sæti staðreynd. Þetta eru mikil vonbrigði því íslenska liðið ætlaði sér stóra hluti á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×