Innlent

Fjórir slösuðust í umferðarslysi á Biskupstungnabraut

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slysið varð við Sogið hjá Þrastarlundi.
Slysið varð við Sogið hjá Þrastarlundi. ja.is
Uppfært klukkan 16:52: Búið er að opna Biskupstungnabraut eftir áreksturinn.

Uppfært klukkan 16:47:
Áreksturinn varð með þeim hætti að einn bíll hafði stoppað á veginum. Þá kom annar bíll á eftir sem ætlaði að taka fram úr bifreiðinni sem búið var að stöðva en þá kom þriðji bíllinn á móti úr gagnstæðri átt.

Uppfært klukkan 16:19:
Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunn á Suðurlandi, segir að fjórir hafi verið fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands með minniháttar meiðsli eftir þriggja bíla árekstur á Biskupstungnabraut við Grafningsveg síðdegis í dag.

Þorgrímur sagði að vinna væri enn í gangi á vettvangi og hafði ekki upplýsingar um hvort búið væri að opna veginn en að því er fram kemur á vef RÚV hefur Biskupstungnabraut verið opnuð að hluta.

Biskupstungnabraut við Grafningsveg við Sogið hjá Þrastarlundi er lokuð vegna umferðarslyss. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi lentu þrír bílar í árekstri en ekki er vitað um slys á fólki.

Tveir sjúkrabílar og tveir lögreglubílar eru komnir á staðinn samkvæmt sjónarvotti.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×