Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnaðist um 12,7 milljarða á fyrri hluta ársins

Atli Ísleifsson skrifar
Vaxtamunur eigna og skulda bankans nam 2,5% á fyrri helmingi ársins 2017.
Vaxtamunur eigna og skulda bankans nam 2,5% á fyrri helmingi ársins 2017. Vísir/Andri marínó
Landsbankinn hagnaðist um 12,7 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2017. Hagnaðurinn nam 11,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2016. 

Í tilkynningu frá bankanum segir að arðsemi eigin fjár á tímabilinu hafi verið 10,6 prósent á ársgrundvelli samanborið við 8,6 prósent á sama tímabili 2016. Kostnaðarhlutfall lækki og er nú 43 prósent.

„Hreinar vaxtatekjur voru 18,2 milljarðar króna og hækkuðu um 3,2% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 4,4 milljörðum króna og hækkuðu um 13,8% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar lækkuðu um 1 milljarð króna á milli tímabila og vanskilahlutfall heldur áfram að lækka, var 1,1% á fyrri helmingi ársins samanborið við 1,7% á sama tímabili 2016.

Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins hækkuðu um 2,5% frá sama tímabili ári áður, úr 28,6 milljörðum króna í 29,3 milljarða króna. Aðrar rekstrartekjur námu 5,4 milljörðum króna samanborið við 4,8 milljarða króna sama tímabil árið áður og skýrist hækkunin aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum á óskráðum hlutabréfum.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,5% á fyrri helmingi ársins 2017 en var 2,3% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans nam 12 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2017 sem er lækkun um 1,7% miðað við sama tímabil árið 2016. Þar af var launakostnaður 7,1 milljarður sem er lækkun um 2,3% frá sama tímabili 2016. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 0,8% frá sama tímabili árið 2016 og var 4,9 milljarðar.

Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2017 var 43,0% sem er lækkun um 4,3 prósentustig frá sama tímabili árið áður. Skýrist lækkunin einkum af jákvæðri þróun á mörkuðum ásamt lægri rekstrarkostnaði bankans.

Eigið fé Landsbankans var 238,9 milljarðar króna 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 27,6%,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×