Formúla 1

Renault: Kubica tekur ekki sæti Palmer í ár

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Cyril Abiteboul og Jolyon Palmer.
Cyril Abiteboul og Jolyon Palmer. Vísir/Getty
Renault liðið í Formúlu 1 þvertekur fyrir að Robert Kubica muni taka sæti Jolyon Palmer hjá liðinu á þessu ári. Palmer hefur átt erfitt uppdráttar og Kubica hefur verið að prófa bíla liðsins að undanförnu.

Kubica sem slasaðist við þátttöku í rallý keppni í Andorra árið 2011, hefur unnið að endurkomu sinni í Formúlu 1 með einum og öðrum hætti síðan. Hann ók fyrir BMW Sauber liðið 2006-2009 og svo fyrir Renault liðið 2010 og 2011. Hann hefur að undanförnu verið að aka eldri Renault bílum í von um að sýna og sanna, bæði fyrir sér og öðrum að hann geti ekið Formúlu 1 bíl af fullum krafti.

Á sama tíma hefur Palmer, annar ökumanna Renault liðsins átt erfitt uppdráttar og ekki haldið í við liðsfélaga sinn Nico Hulkenberg í stigasöfnun til handa liðinu. Palmer hefur ekki enn náð í stig en Hulkenberg hefur sótt 26 stig.

„Við stöndum við bakið á Jo og það er engin breyting væntanleg þar,“ sagði Cyril Abiteboul í samtali við Autosport.

„Þær prófanir sem við höfum staðið í með Robert eru til þess að athuga hversu raunhæfur sá möguleiki er að hann snúi aftur til keppni í nútíma Formúlu 1. Robert gæti verið mögulegur ökumaður fyrir 2018 en til að vita hvort það komi raunverulega til greina þá þurfum við að athuga hvort hann þoli aukið niðurtog og meira afl,“ bætti Abiteboul við.

Kubica fær að prófa Renault bíl þessa árs eftir keppnina um helgina í Ungverjalandi. Þá fara fram æfingar og svo hefst fjögurra vikna sumarfrí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×