Viðskipti innlent

Eignir í stýringu lækkuðu um 27 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa
Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa
Eignir í stýringu Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, lækkuðu um 27 milljarða króna eða um fimmtán prósent á fyrstu sex mánuðum ársins. Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segir að skýringuna megi að langmestu leyti rekja til mikilla sveiflna í stærð lausafjársjóða í stýringu félagsins.

Eignir í stýringu félagsins voru 157 milljarðar í lok júnímánaðar samanborið við 184 milljónir króna í upphafi ársins. Þess má geta að heildarfjárhæð eignanna var 129 milljarðar í lok árs 2015 og hafa sveiflurnar því verið miklar síðustu ár.

Helgi Þór bendir á að lausafjársjóðir félagsins, sem og annarra sjóðastýringafélaga, hafi stækkað verulega að undanförnu. Það hafi leitt til þess að sveiflurnar í stærð sjóðanna, og þar með eigna í stýringu, hafi aukist. Þessar sveiflur hafi hins vegar engin stórkostleg áhrif á afkomu Landsbréfa.

Hagnaður Landsbréfa nam 556 milljónum króna á fyrri hluta ársins og jókst um 91 prósent á milli ára. Jukust rekstrartekjurnar um 37 prósent og námu 1.135 milljónum. Helgi Þór segir reksturinn hafa gengið vel á árinu. Efnahagsástandið sé gott um þessar mundir og forsendur til staðar fyrir góðri ávöxtun á komandi misserum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×