Erlent

Palestínumenn sungu og dönsuðu af gleði í Jerúsalem

Múslimar báðu fyrir utan mosku sína áður en Ísraelar fjarlægðu umdeildan öryggisbúnað.
Múslimar báðu fyrir utan mosku sína áður en Ísraelar fjarlægðu umdeildan öryggisbúnað. vísir/EPA
Palestínumenn flykktust aftur á Musterishæðina í Jerúsalem, sem múslimar kalla reyndar Haram al-Sharif, til þess að leggjast á bæn. Yfirvöld í Ísrael ákváðu að taka niður öryggishlið og öryggismyndavélar sem hafði verið komið þar upp til að fylgjast með Palestínumönnum í kjölfar þess að tveir ísraelskir lögreglumenn voru skotnir til bana á svæðinu.

Þegar hinni umdeildu öryggisgæslu var komið á hvöttu trúarleiðtogar Palestínumanna á svæðinu til sniðgöngu. Þótti þeim brot á réttindum múslima að þurfa að gangast undir öryggisleit til þess að sækja einn helgasta stað íslam heim.

Aðgerðir Ísraela urðu að miklu hitamáli. Fjöldamótmæli spruttu upp, múslimar báðu á bílastæðum utan við Musterishæðina og sjö misstu líf sitt í átökum.

Brottflutningur öryggistækjanna vakti mikla lukku og að því er BBC hermir mátti sjá Palestínumenn syngja og dansa af fögnuði fyrir utan svæðið áður en þeir gengu inn í al-Aqsa moskuna til bænahalds.

Menntamálaráðherra Ísraels, Naftali Bennett, sem er þó andstæðingur forsætisráðherrans Benjamíns Netanjahú, gagnrýndi ákvörðunina í gær. „Í stað þess að senda skýr skilaboð um yfirráð Ísraela sendum við skilaboð um að yfirráð okkar megi draga í efa.“

Ísraelar gera tilkall til Jerúsalemborgar allrar þótt alþjóðasamfélagið viðurkenni ekki yfirráð þeirra. Palestínumenn gera hins vegar tilkall til austurhluta borgarinnar en hún er höfuðborg Palestínu. 


Tengdar fréttir

Ísrael herðir umdeildar öryggisráðstafanir

Palestínumenn eru æfir vegna hertrar gæslu við einn helgasta stað múslima. Segja brotið á mannréttindum sínum. Málmleitarhliðum var komið upp vegna skotárásar á staðnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur málið fyrir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×