Erlent

Vill að bandalagsríki einbeiti sér að ISIS

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bandaríkin vilja að uppreisnarmenn einbeiti sér að ISIS.
Bandaríkin vilja að uppreisnarmenn einbeiti sér að ISIS. Nordicphotos/AFP
Bandaríkin, sem eru í forsvari fyrir hernaðarbandalagi hliðhollu uppreisnarmönnum í Sýrlandi, vilja að bandalagsríki einbeiti sér alfarið að baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Það þýðir að hernaðarbandalagið myndi ekki beita sér gegn hersveitum ríkisstjórnar Bashars al-Assad.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagði við blaðamenn í gær að markmið Bandaríkjanna í Sýrlandi og Írak væri að berjast við ISIS, eingöngu ISIS.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók ákvörðun um að leynilegt verkefni CIA, sem gekk út á að sjá uppreisnarmönnum í Sýrlandi fyrir birgðum og vopnum, yrði stöðvað. Birtust fréttir af ákvörðuninni fyrir rúmri viku.

„Við höfum ítrekað að markmið okkar er að berjast við ISIS og eingöngu ISIS. Við höfum beðið aðra aðila að bandalaginu um að gera slíkt hið sama,“ sagði Ryan Dillon, talsmaður hernaðarbandalagsins, í gær.

CNN greindi frá því að hópur uppreisnarmanna, Shohada al-Quartyan, hafi yfirgefið herstöð bandalagsins í suðurhluta Sýrlands á dögunum eftir að hafa verið beðinn um að einbeita sér að ISIS en ekki baráttunni við Sýrlandsher. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×