Innlent

Skátar valda minna álagi á Strætó en talið var

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Um 5.000 skátar mættu á mótið.
Um 5.000 skátar mættu á mótið. VÍSIR/VILHELM
Strætó hefur einna helst þurft að bregðast við auknu álagi vegna heimsmóts skáta hér á landi á leið 57, sem fer upp að Esju. Óttast var að mótið myndi sprengja almenningssamgöngukerfi borgarinnar en það hefur ekki gerst. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

„Það er ekki búið að vera mikið álag á gulu vögnunum á höfuðborgarsvæðinu eins og er,“ segir Guðmundur Heiðar.

Upplýsingafulltrúinn segist ekki hafa heyrt um að hamfaraálag sé á strætókerfinu líkt og spáð var. „Ég tékkaði ekki á því í dag [í gær] en ég hefði heyrt af því ef það hefði verið eitthvað. Okkur finnst þetta hafa gengið mjög vel.“

Strætó vinnur með skátunum að því að dreifa álaginu. Segir Guðmundur Heiðar að skátarnir passi að dreifa sér ágætlega og að þeir muni láta vita ef það er von á miklu álagi. „Hingað til höfum við bara þurft að bregðast við á leið 57. Annars er þetta nokkuð gott allt saman.“

Til að bregðast við mögulegu álagi eru bílstjórar Strætó á bakvakt tilbúnir að stökkva inn í með aukavagn á tilteknar leiðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×