Innlent

Foreldrar tilkynntir til lögreglu vegna vanrækslu í útilegum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dæmi eru um að foreldrar séu tilkynntir til lögreglu vegna meintrar vanrækslu gagnvart börnum sínum í útilegum eða á útihátíðum. Slík mál koma upp á hverju sumri og lenda þá á borði barnaverndaryfirvalda.

„Þessar tilkynningar koma til okkar á hverju sumri. Tilkynningarnar eru þess eðlis að foreldrar stundi full frjálslegt líferni, það er áfengi og annað slíkt, og börnin eru þá kannski eftirlitslaus á meðan,“ segir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

„Svo gerist þetta bara oft í sumarfríum fólks að það missir stjórn á neyslu sinni og börn gjalda fyrir það.“

Halldóra segir að tilkynningar berist ýmist frá aðstandendum eða nærstöddum á tjaldsvæðum. Viðbrögð barnaverndar séu að skoða fjölskylduaðstæður hvers og eins og grípa inn í sé þess þörf. Ekki sé til sundurliðun á þessum vanrækslutilkynningum, en alls var tilkynnt um 3.674 vanrækslumál á landsvísu í fyrra.

„Heimilisofbeldismálin geta orðið á tjaldsvæðum eins og annars staðar,“ segir Halldóra.

Lögregluembætti víðast hvar á landinu kannast við þessi mál þó í mismiklum mæli sé.

„Auðvitað er þetta alls staðar svona. En börnin eiga auðvitað bara að vera með forráðamönnum sínum og það er eðlilegt að þeir séu í standi til þess að hugsa um börnin. ,“ segir Tryggvi Kr. Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×