Erlent

Hertar þvinganir gegn Rússum á borði Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt með miklum meirihluta að herða viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. 98 þingmenn af hundrað kusu með frumvarpi sem kemur líka í veg fyrir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, geti dregið úr þvingunum án aðkomu þingsins. Frumvarpið fer nú á skrifborð Trump til staðfestingar.

Hann gæti hins vegar neitað að skrifa undir frumvarpið, en það hefur verið harðlega gagnrýnt af starfsmönnum Hvíta hússins. Þá hefur Trump sóst eftir bættum samskiptum við Rússa.

Neiti forsetinn að skrifa undir, getur öldungadeildin samt gert frumvarpið að lögum með tveimur þriðju meirihluta, sem ætti ekki að vera þeim erfitt miðað við hve margir þingmenn styðja frumvarpið.



Þvinganirnar voru samdar af þingmönnum með hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu og afskipti þeirra af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í huga. Nokkrar rannsóknir standa nú yfir varðandi afskiptin og meðal annars er sérstakur saksóknari einnig að rannsaka mögulegt samstarf framboðs Trump með Rússum.

Herða skrúfurnar

Forsetinn hefur ávalt neitað fyrir mögulegt samstarf og hefur einnig sagt að fregnir af afskiptum Rússa séu runnin undan rifjum Demókrataflokksins til að hylja yfir vandræðalegt tap í kosningunum. Forsvarsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna hafa þó gefið út að þeir séu sannfærðir um að afskiptin séu raunveruleg og snúa meðal annars að tölvuárásum og áróðri.

Frumvarpið hefur einnig verið gagnrýnt af ríkjum í Evrópu sem kaupa olíu og gas af Rússum, en það gæti verið gegn þvingunum Bandaríkjanna.

Paul Ryan, leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeild þingsins, segir hinum nýju þvingunum ætlað að herða skrúfurnar að helstu andstæðingum Bandaríkjanna. Frumvarpið snýr einnig að þvingunum gegn Íran og Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Rússar óánægðir með hertar refsiaðgerðir

Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur sagt að verði frumvarpið að lögum brjóti þvinganirnar gegn alþjóðalögum og að þær muni skaða samband ríkjanna verulega. Þá segir hann að Rússland muni bregðast við þvingunum þegar þær líta dagsins ljós.



Hann sagði sífellt verið að reyna að ögra Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×