Innlent

Braust inn í heilsugæslu í austurbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Erill var hjá lögreglu í nótt en í austurbænum var einnig handtekinn maður sem var að skemma vinnuvélar.
Erill var hjá lögreglu í nótt en í austurbænum var einnig handtekinn maður sem var að skemma vinnuvélar. Vísir/Eyþór
Töluvert var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en um klukkan 23:45 í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í heilsugæslu í austurbænum. Þá var annar maður handtekinn í austurbænum laust fyrir 4 í nótt en sá var að skemma vinnuvélar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um klukkan 23:45 barst lögreglu tilkynning um innbrot í heilsugæslu í austurbæ Reykjavíkur. Ekki er vitað hvað var tekið en rúmum tveimur klukkutímum síðar var karlmaður handtekinn sem grunaður er um innbrotið. Hann var vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.

Rétt fyrir 4 í nótt var tilkynnt um mann vera að skemma vinnuvélar í austurbænum. Karlmaður var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsókna og skýrslutöku.

Þá voru höfð afskipti af manni í annarlegu ástandi í vesturbænum rétt eftir 2 í nótt. Á manninum fundust ætluð fíkniefni og farið var með manninn á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þar var málið afgreitt og maðurinn látinn laus.

Til viðbótar voru fimm stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þeir voru allir lausir að lokinni blóðtöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×