Innlent

Göngufólkið í Lónsöræfum fundið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert amaði að göngufólkinu.
Ekkert amaði að göngufólkinu.
Þrír göngumenn, sem týndir voru í Lónsöræfum við Vatnajökul, eru fundnir. Fólkið náði að komast af sjálfsdáðum í skálann Egilssel og er allt heilt á húfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Leit hefur staðið yfir í alla nótt að göngufólkinu í Lónsöræfum sem orðið hafði viðskila við göngufélaga sína í gær. Um klukkan 7 í morgun fundu björgunarsveitarmenn fólkið, sem komist hafði af sjálfsdáðum í skálann Egilssel. Ekkert amar að fólkinu.

Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út til leitar í morgun en var þó ekki komin á staðinn þegar fólkið fannst. Leitarskilyrði voru erfið en þó nokkur vindur hefur verið á svæðinu auk mikillar þoku.

„Um 50 manns hafa komið að leitinni í nótt við krefjandi aðstæðu. Baldur Pálsson, sem  er í aðgerðarstjórn, segir að aðgerðin hafi tekist betur en menn bjuggust við þar sem leitarsvæðið er erfitt yfirferðar og mjög lélegt fjarskiptasamband er þar. Þegar fólkið fannst var í undirbúningi að boða út enn fleira björgunarsveitarfólk og einnig hafði verið óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Maður á Síðujökli einnig fundinn

Ferðamaður á Síðujökli lenti einnig í vandræðum vegna veðurs í nótt. Hann óskaði eftir aðstoð í gegnum neyðarsendi en björgunarsveitarmenn á snjósleðum komu að honum þar sem hann hafði ætlað að gista nóttina í tjaldi á jöklinum.

„Um fjögur í nótt komu björgunarsveitarmenn á snjósleðum að manninum sem hafði ætlað að gista nóttina í tjaldi á Síðujökli en lenti í vandræðum vegna veðurs. Maðurinn hafði náð að senda út neyðarboð með neyðarsendi og því var staðsetning hans þekkt. Hann hafði haldið kyrru fyrir á þeim stað og var orðin kaldur og blautur þegar komið var að honum. Hann var ferjaður á sleðum áleiðs að björgunarsveitarbílum sem voru ofar á jöklinum og er nú á leið til af jöklinum,“ segir í tilkynningunni.

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×