Enski boltinn

Chelsea vill fá Renato Sanches á láni frá Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Renato Sanches.
Renato Sanches. Vísir/Getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, er ekki hættur að styrkja liðið sitt fyrir titilvörnina í ensku úrvalsdeildinni og nú vill Ítalinn fá leikmanna að láni frá þýsku meisturunum.

Conte hefur samkvæmt frétt frá Telegraph mikinn áhuga á að fá portúgalska miðjumanninn Renato Sanches á láni frá Bayern München.

Chelsea og Bayern mættust í alþjóðlega æfingamótinu International Champions Cup í vikunni og samkvæmt heimildum blaðsins þá ræddi Conte þennan möguleika við landa sinn, Carlo Ancelotti, þjálfara Bayern München, eftir leikinn.

Bayern München er tilbúið að láta hinn 19 ára gamla Sanches fara í eitt ár á láni en það gekk illa hjá þessum efnilega Portúgala að fóta sig á sínu fyrsta tímabili með þýska liðinu.

Chelsea er ekki eina liðið sem vill fá hann því ítalska félagið AC Milan hefur einnig áhuga.

Það var mikið gert úr kaupum Bayern á Sanches frá Benfica í maí í fyrra en kaupverðið gæti endaði í 75 milljónum punda nái hann öllum árangurstengdum markmiðum samningsins. Hann þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu en þarf að fá að spila meira í vetur til að þroskast sem leikmaður.

Conte hefur þegar eytt í kringum 130 milljónum punda í sumar þar á meðal setti hann félagsmet þegar hann keypti Alvaro Morata frá Real Madrid. Diego Costa og Nemanja Matic eru hinsvegar á förum frá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×