Innlent

Enginn ging-gang-gúllígúllí-bragur á nútímaskátanum: Skátar dansa um Skólavörðustíginn

Jakob Bjarnar skrifar
Skátarnir ætla að leggja undir sig Skólavörðustíginn á eftir og dansa þar um sem þeir skátar sem þeir eru.
Skátarnir ætla að leggja undir sig Skólavörðustíginn á eftir og dansa þar um sem þeir skátar sem þeir eru. visir/vilhelm

Skátar frá um 60 löndum sem dvelja í Reykjavík þessa viku, eins og fram hefur komið, þeir eru fleiri á landinu en nokkru sinni fyrr og þeir ætla að standa fyrir stærsta „flash-mob“ Íslandssögunnar á Skólavörðustígnum nú á eftir, nánar tiltekið klukkan fimm. Það er sem sagt enginn „ging-gang-gúllí-gúllí-bragur“ á nútímaskátanum - kakó hitum og eldum graut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sölva Melax sem er kynningarfulltrúi World Scout Moot 2017. Þessi uppákoma verður í samvinnu við Götuleikhús Hins hússins. Skátarnir, sem alla jafna eru hinir hressustu eru óvenju hátt uppi þessa dagana vegna mótsins. Kjörorð skátamótsins er Change eða breyting til góðs en með þessu kjörorði vilja skátarnir undirstrika þá ósk að vera hreyfiafl í átt að betri heimi og leggja áherslu á þetta með gjörningnum.

Mála borgina appelsínugula

„Við sjáum fyrir okkur að skátarnir dansi um Skólavörðustíginn og við viljum fá almenning til þess að taka þátt í dansinum með þeim. Þannig tengjum við saman um 60 lönd í dansi í ósk um betri heim“, segir Sigurður Viktor Úlfarsson sem vinnur að undirbúningi gjörningsins í samvinnu við Götuleikhúsið og Hitt húsið. Leikstjóri er Jón Gunnar hjá Götuleikhúsinu og danshöfundur er Guðmundur Elías Knudsen.

„Við viljum mála bæinn appelsínugulan en sá litur er einmitt einkennislitur alþjóðlega skátamótsins, World Scout Moot. Atriðið verður í anda upphafsatriðisins úr kvikmyndinni La la land og kemur úr smiðju Jóns Gunnars leikstjóra og hinna snillinganna hjá Götuleikhúsinu“, segir Sigurður Viktor.

Skátarnir setja sinn brag á landið allt

Í tilkynningunni segir jafnframt að mótið sé heimsmót skáta á aldrinum 18-25 ára og eru þátttakendur alls um 5.000 talsins og dvelja á 11 stöðum víðs vegar um landið, í Reykjavík eru hátt í 400 skátar.

„Allir 5.000 safnast síðan saman á Úlfljótsvatni um helgina þar sem. Í Reykjavík og á öðrum stöðum um landið hafa skátarnir unnið við sjálfboðastörf til hagsbóta fyrir samfélögin á hverjum stað auk þess að skemmta sér og öðrum við fjölbreytt verkefni. Þannig hafa þeir skátar sem taka þátt í gjörningnum á Skólavörðustígnum jafnframt unnið við ýmis verkefni á vegum Reykjavíkurborgar.“


Tengdar fréttir

Skátar valda minna álagi á Strætó en talið var

Strætó hefur einna helst þurft að bregðast við auknu álagi vegna heimsmóts skáta hér á landi á leið 57, sem fer upp að Esju. Óttast var að mótið myndi sprengja almenningssamgöngukerfi borgarinnar en það hefur ekki gerst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×