Íslenski boltinn

Kristinn Jónsson aftur til Breiðabliks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jónsson.
Kristinn Jónsson. Vísir/Andri Marinó
Bakvörðurinn Kristinn Jónsson mun klára tímabilið með Breiðabliki í Pepsi-deild karla en þetta er staðfest á stuðningsmannasíðu félagsins.

Kristinn Jónsson kemur frá Sogndal í norsku úrvalsdeildinni en áður hefur hann verið á mála hjá Sarpsborg í sömu deild sem  og með Brommapojkarna í Svíþjóð.

Kristinn Jónsson hefur aðeins spilað í samtals 22 mínútur með Sogndal í fyrstu 17 umferðum tímabilsins en hann kom inn á sem varamaður í eina leiknum sem var 4. júní síðastliðinn.

Kristinn er 26 ára vinstri bakvörður sem hefur leikið 223 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks. Hann var lykilmaður þegar Blikar urðu bæði Íslandsmeistarar 2010 og bikarmeistarar árið áður.

Kristinn er uppalinn Bliki og þetta er í annað skiptið sem hann kemur aftur heim í Smárann úr atvinnumennsku. Hann kom einnig heim í Breiðablik sumarið 2015 og var þá stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar. Kristinn gaf þá 9 stoðsendingar og varð fyrsti bakvörðurinn til að vinna stoðsendingatitilinn.

Kristinn hefur leikið átta landsleiki fyrir Ísland og hefur verið í kringum A-landsliðið undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×