Innlent

Kærði embættismann í heimabæ sínum fyrir kynferðislega áreitni: „Mér fannst ég eiga að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið nauðgað“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Helga María Ragnarsdóttir segir að áreitið af hálfu mannsins hafi hafist þegar hún var 14 ára. Facebook-færsla móður Helgu Maríu um málið vakti mikla athygli í gær.
Helga María Ragnarsdóttir segir að áreitið af hálfu mannsins hafi hafist þegar hún var 14 ára. Facebook-færsla móður Helgu Maríu um málið vakti mikla athygli í gær. Helga María Ragnarsdóttir
Helga María Ragnarsdóttir kærði fyrir um tíu árum síðan embættismann í heimabæ sínum fyrir kynferðislega áreitni. Málið fór fyrir dómstóla en maðurinn var sýknaður bæði í héraðsdómi og Hæstarétti af ákæru í málinu. Í samtali við Vísi lýsir Helga María áreitinu sem hún upplifði engu að síður af hálfu mannsins.

Hún segir að áreitið hafi hafist þegar hún var 14 ára og að því hafi lokið tveimur árum síðar þegar maðurinn króaði hana af inni á skrifstofu sinni, á stofnun sem Helga María hafði sótt vegna félagsstarfa nær alla barnæsku sína, og leitaði á hana.

Þá stóðu fjölmargir íbúar bæjarins jafnframt með manninum, sem var mikilsmetinn í litlu samfélagi, en Helga María rekur viðhorfið til embættismannadýrkunar í bæjarfélögum úti á landi. Þegar Robert Downey, lögfræðingur og dæmdur kynferðisafbrotamaður, fékk uppreist æru á dögunum ákvað Helga María að stíga fram og segja sögu sína.

 

Helga María Ragnarsdóttir ákvað að segja sögu sína eftir að Roberti Downey, lögfræðingi og dæmdum kynferðisafbrotamanna, var veitt uppreist æru.Helga María Ragnarsdóttir
„Ég hélt alltaf að þetta væri bara gamall maður að gera eitthvað óvart“

„Þetta byrjaði þegar ég var fjórtán en ég vissi ekki alveg hvað var í gangi, þetta var svona lúmskt. Hann var mikið að faðma mig og strjúka mér kannski óvart niður á rass. Ég hélt alltaf að þetta væri bara gamall maður að gera eitthvað óvart, að hann væri ekkert að meina neitt með þessu, en mér fannst það samt alltaf óþægilegt,“ segir Helga María í samtali við Vísi.

Maðurinn, sem þá var á sjötugsaldri, starfaði á stofnun sem Helga María sótti nær öll æsku- og unglingsárin. Hún segir að áreitnin hafi náð hámarki þegar hún var sextán ára en þá hafi maðurinn leitað á hana inni á skrifstofu sinni.

„Tveimur árum síðar var ég lokuð inni á skrifstofunni hans og hann leitaði á mig. Það var ekki fyrr en þá að ég áttaði mig á því að þetta hafði verið í gangi allan þennan tíma.“

Voru miður sín – en ekki hissa – vegna áreitninnar

Helga María segist hafa hlaupið út af skrifstofu mannsins og hitt fyrir tvo starfsmenn. Hún sagði þeim frá því sem hafði gerst. Frásögnin kom starfsmönnunum ekki á óvart.

„Þau voru nefnilega ekkert rosalega hissa. Það fyrsta sem kennarinn minn, sem ég lét vita af þessu, sagði var að svipað atvik hefði átt sér stað viku fyrr, hjá stelpu sem var reyndar orðin fullorðin. Hann var miður sín en hann var ekki hissa.“

Atvikið inni á skrifstofunni markaði endalok áreitisins að sögn Helgu Maríu. Maðurinn leitaði ekki á hana aftur en Helga María lét móður sína einnig vita af því sem á undan hafði gengið.

„Mamma tók þessu með ró en ég var búin að biðja hana lofa mér, áður en ég segði henni frá, að hún myndi ekki segja neinum öðrum það sem ég væri að fara að segja henni. Mér fannst þetta skömmustulegt og ég vissi ekkert hvernig mér átti að líða. Ég vildi ekki að fólk vissi að þetta hafði gerst.“

Lilja Magnúsdóttir, móðir Helgu Maríu, hefur staðið þétt við bakið á dóttur sinni síðan málið kom upp.Lilja Magnúsdóttir
Hélt að það væri nóg að segja frá

Móðir Helgu Maríu, Lilja Magnúsdóttir, kom ásökunum dótturinnar áfram til viðeigandi aðila. Málið fór loks fyrir dómstóla, eins og áður segir, þegar Helga María var flutt til Reykjavíkur og á fyrsta ári hennar í menntaskóla féll dómur, fyrst í héraðsdómi og síðar í Hæstarétti. Maðurinn var sýknaður en í dómnum var þó tekið fram að framburður Helgu Maríu þætti trúanlegur.

„Á sama tíma og ég var fegin að þetta væri allt búið þá var ég að sjálfsögðu slegin. Þetta var högg og mér fannst eins og það væri verið að segja við mig: „Við trúum þér alveg en hann fær samt að komast upp með þetta,“ og ég skildi það ekki,“ segir Helga María.

„Ég hélt bara að auðvitað væri það nóg að ég segði mína sögu.“

Hætti að líða vel í heimabænum

Málið spurðist fljótt út meðal íbúa í heimabæ Helgu Maríu en sveitungar hennar skipuðu sér fjölmargir í lið með manninum sem hún kærði. Þá segir Helga María manninn sjálfan hafa reynt ítrekað að nálgast hana og fjölskyldu hennar til að ræða málin.

„Eftir þetta allt saman leið mér mjög skringilega af því að maðurinn var mikið að reyna að komast heim til okkar og tala við okkur. Og ég vissi að ef ég myndi mæta honum úti á götu þá myndi hann taka mig og tala um þetta og ég vildi það ekki,“ segir Helga María.

„Ég forðaðist þess vegna mikið að labba fram hjá húsinu hans, sem var í leiðinni heim til mín, og mamma sótti mig alltaf ef ég var úti eftir að dimmdi því mér leið ekki lengur vel þegar ég labbaði um í bænum. Þegar ég kem heim í dag finnst mér ég ekki tengja lengur við þennan stað.“

Sjá einnig: Stígur fram vegna máls Robert Downey: „Móðirin, ég, bíður þess að embættismaðurinn detti niður dauður“

Embættismannadýrkun ríkjandi mein í litlum bæjum

Helga María er nú búsett í Svíþjóð og flutti, eins og áður sagði, sextán ára til Reykjavíkur þar sem hún hóf nám til stúdentsprófs. Aðspurð hvort náið smábæjarsamfélag sé fjandsamlegra umhverfi fyrir þolendur kynferðisofbeldis en stærri samfélög segir Helga María telja svo vera.

„Já, ég held að það sé erfiðara. En ég held að það sé enn erfiðara þegar embættismenn eiga í hlut. Það ríkir einhver embættismannadýrkun á svona litlum stöðum, fólk alveg dýrkar þessa embættismenn í bænum sínum og er ekki tilbúið til að trúa neinu svona upp á þá.“

Hún segir reiði margra íbúanna hafa beinst að sér og öðrum stúlkum sem sökuðu manninn um kynferðislega áreitni. Þá safnaðist fólk einnig saman á samkomu manninum til stuðnings.

„Það var haldinn fundur honum til stuðnings og þangað mættu yfir tvö hundruð manns. Fólki var mikið niðri fyrir og margir voru reiðir út í okkur, litlar stelpur í grunnskóla, eins og við hefðum eitthvað illt í hyggju.“



Lilja Magnúsdóttir ásamt dóttur sinni, Helgu Maríu Ragnarsdóttur.Lilja Magnúsdóttir
Stigu nokkrar fram og sökuðu manninn um áreitni

Þegar dómsmálið stóð sem hæst, og aftur nú þegar mæðgurnar hafa gert sögu sína opinbera, höfðu fjölmargar konur samband við Helgu Maríu. Hún segir þær allar hafa átt það sameiginlegt að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hendi mannsins. Auk Helgu Maríu stigu aðrar stúlkur í bænum fram og sögðu manninn hafa áreitt sig á sama tímabili.

„Við, sem sem hann leitaði á, þekkjumst flestar. Við vorum sem sagt fimm sem höfðum allar verið saman í skóla og í kór. Þær töluðu einmitt við mig nokkrar í gær,“ segir Helga.

„Svo þegar þetta var allt saman í gangi þá fékk ég mörg símtöl frá konum, sem voru jafnvel komnar á miðjan aldur og bjuggu í bæjum víðsvegar á Íslandi, sem höfðu lent í honum þegar þær voru á mínum aldri en þorðu aldrei að segja frá. Þær hringdu heim og þökkuðu mér fyrir hugrekkið.“

„Mér fannst ég eiga að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið nauðgað“

Helga María segist lengi hafa barist við að réttlæta tilfinningar sínar í garð alls sem gerðist. Hún segir þó að mikil hjálp hafi verið í stuðningnum sem henni barst eftir að hún sagði frá og í gær, rúmum áratug eftir að áreitnin hófst, hafi hún fundið endanlega sálarró.

„Ég hef aldrei viljað tala um þetta við neitt sérstaklega marga. En áður fyrr, og það er fáránlegt að ég hafi hugsað þetta svona eftir á að hyggja, þá fannst mér ég ekki hafa rétt á því að líða illa yfir þessu. Mér fannst ég eiga að vera þakklát fyrir að hafa ekki verið nauðgað, að þetta væri ekki eitthvað miklu alvarlegra.“

Helga María hefur þó sagt skilið við þessar hugsanir. Hún segist nú gera sér grein fyrir því að tilfinningar sínar vegna málsins séu réttmætar.

„Þannig að það var ekki fyrr en í gær að ég fékk endanlegt „closure“. Sálarró.“

Þá segir Helga María mikilvægt að samfélagið taki ungu fólki, sem verður fyrir kynferðisofbeldi og áreitni, opnum örmum.

„Við verðum að standa saman sem samfélag. Ungir einstaklingar sem opna sig og segja frá ofbeldi eiga ekki að þurfa að mæta fullorðnu fólki sem snýr við þeim baki. Það er svo mikilvægt að fórnarlömb fái stuðning samfélagsins og að þeim sé það algjörlega skýrt að skömmin eigi alls ekki heima hjá þeim. Það er sá sem beitir ofbeldi sem á að skammast sín.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×