Erlent

Tæpur helmingur repúblikana vill að stjórnvöld geti lokað fjölmiðlum

Kjartan Kjartansson skrifar
Washington Post er einn þeirra fjölmiðla sem Trump og repúblikana hafa ítrekað vænt um að flytja gervifréttir.
Washington Post er einn þeirra fjölmiðla sem Trump og repúblikana hafa ítrekað vænt um að flytja gervifréttir. Vísir/EPA
Bandaríska ríkið ætti að geta lokað fjölmiðlum sem það telur hlutdræga eða ónákvæma að mati nærri því helmings repúblikana. Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að svipað margir Bandaríkjamenn eru fylgjandi og mótfallnir slíkri valdheimild.

Spurningin sem borin var upp var hvort að svarendur myndu styðja það að leyfa dómstólum að loka fréttastofum fyrir að birta eða flytja fréttir sem hlutdrægar eða ónákvæmar.

Aðeins 29% sögðu mótfallin slíkri heimild en 28% sögðust henni fylgjandi. Heil 43% sögðust óákveðin í könnun tímaritsins The Economist og könnunarfyrirtækisins Yougov.

Mikill munur á demókrötum og repúblikönum

Hlutföllin voru hins vegar verulega ólík þegar litið var til pólitískra skoðana fólks.

Þannig sögðust heil 45% svarenda sem styðja Repúblikanaflokkinn styðja það að stjórnvöld gætu lokað fjölmiðlum. Aðeins 20% sögðust á móti því en 35% voru óviss.

Innan við fimmtungur demókrata vill að dómstólar hafi heimild til að þagga niðri í fjölmiðlum og rúm 40% eru andvíg því.

Viðhorf Trump til fjölmiðla síast niður

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur eytt miklu púðri í að ráðast á fjölmiðla. Hann hefur ítrekað sakað CNN, New York Times og Washington Post um að flytja gervifréttir og hefur lýst blaðamönnum sem „óvinum þjóðarinnar“.

Stjórnmálaskýrandi sem vefmiðillinn Vox ræddi við telur ekki óvarlegt að ætla að orð Trump um fjölmiðla hafi skoðanamótandi áhrif á stuðningsmenn repúblikana.

„Það er mikið af vísbendingum um að flokkurinn sem einstaklingar samsama sig með stjórni skoðunum þeirra um fjölda málefna frekar en öfugt,“ segir Will Jordan, kannanagreinandi við almannatengslafyrirtækið Global Strategy Group.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×