Erlent

Pólska stjórnarandstaðan mælist stærri en stjórnarflokkarnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingar ríkisstjórnar Póllands telja breytingar á dómstólum tilburði í átt að einræðisstjórn.
Andstæðingar ríkisstjórnar Póllands telja breytingar á dómstólum tilburði í átt að einræðisstjórn. Vísir/AFP
Ný skoðanakönnun í Póllandi sýnir að tveir helstu stjórnarandstöðuflokkarnir njóta nú meiri stuðnings en samsteypustjórn þjóðernisíhaldsmanna. Mótmælalda hefur gengið yfir landið að undanförnum vegna tilrauna stjórnarinnar til að endurskipuleggja réttarkerfið.

Dagblaðið Rzeczpospolita birti könnun sem sýnir að frjálslyndu flokkarnir tveir, Borgaralega stefnan og Nowoczesna fengju 35% atkvæða ef kosið yrði í dag. Þriggja flokka samsteypustjórnin undir forystu Laga og réttlætis fengi hins vegar 32%.

Ríkisfréttastofan TVP Info, sem hefur verið gagnrýnd fyrir vinnubrögð sín, birti aftur á móti aðra könnun sem sýndi stjórnarflokkana með 38% gegn 34% stjórnarandstöðuflokkanna ef þeir byðu sig allir fram hver í sínu lagi. Ekki var greint frá því hvað bandalag stjórnarandstöðuflokkanna fengi, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Andrzej Duda, forseti, beitti neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir að tvö frumvörp sem hefðu meðal annars gert ríkisstjórninni kleift að skipta út öllum hæstaréttardómurum landsins yrði að lögum á mánudag.

Breytingum ríkisstjórnarinnar á dómskerfinu hefur verið mótmælt víða um Pólland undanfarið og hafa fulltrúar Evrópusambandsins hótað því að beita pólsk stjórnvöld refsiaðgerðum verði breytingarnar að lögum.


Tengdar fréttir

Pólverjar fá mánaðarfrest til að hlýða

Framkvæmdastjórn ESB gefur Pólverjum mánuð til að draga til baka umdeild áform um breytingar á dómskerfinu. Stjórnarandstæðingar segja ríkisstjórnarflokkinn reyna að taka sér meiri völd. Ríkisstjórnin segir dómskerfið spillt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×