Íslenski boltinn

Kristófer: Möguleikarnir eru kannski ekki „gígantískir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiknir R. leikur sinn fyrsta leik í undanúrslitum bikarkeppninnar í sögu félagsins á morgun.

Leiknismenn fara þá í Kaplakrika og mæta Íslandsmeisturum FH. Sigurvegarinn mætir ÍBV í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli 12. ágúst næstkomandi.

„Þeir eru kannski ekki „gígantískir“ en þetta er nú einu sinni fótbolti og það er ýmislegt sem getur gerst þar. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að litlu liðin geta stítt þessum stóru öðru hverju,“ sagði Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis, í kvöldfréttum Stöðvar 2 þegar Arnar Björnsson spurði hann út í möguleika Leiknismanna gegn FH-ingum á morgun.

En hvernig ætlar Leiknir að fara að því að vinna FH á morgun?

„Það þarf ýmislegt að ganga upp og við vitum að ef við myndum spila 10 sinnum við þá myndu þeir vinna níu sinnum. Eigum við ekki að vona að tíundi leikurinn sé á morgun,“ sagði Kristófer sem tók við þjálfun Leiknis af Kristjáni Guðmundssyni fyrir þetta tímabil.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×