Formúla 1

Daniel Ricciardo fljótastur á föstudegi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Daniel Ricciardo á æfingu í dag.
Daniel Ricciardo á æfingu í dag. Vísir/Getty

Daniel Ricciardo á Red Bull var fljótastur á báðum æfingum dagsins fyrir ungverska kappaksturinn sem fram fer um helgina. Uppfærslurnar á Red Bull bílnum greinilega að virka vel.

Fyrri æfingin
Kimi Raikkonen varð annar á fyrri æfingunni á Ferrari bílnum. Lewis Hamilton varð þriðji á Mercedes. Fyrstu fimm ökumennirnir voru á sömu sekúndunni. Sebastian Vettel á Ferrari, sem leiðir heimsmeistarakeppni ökumanna varð sjötti. Hann var að glíma við yfirstýringu á bílnum.

Fernando Alonso varð sjöundi á McLaren bílnum einni og hálfri sekúndu á eftir Ricciardo. Brautin í Ungverjalandi á að vera eitt besta tækifæri McLaren liðsins til að ná í góð stigasæti. Bíl liðsins hefur gengið betur á brautum þar sem undirvagninn skiptir meira máli en hreint afl. Það er verst geymda leyndarmálið í Formúlunni að Honda vélin er afllítil í samanburði við Ferrari og Mercedes vélarnar.

Seinni æfingin
Vettel varð annar á seinni æfingunni. Líklega verður baráttan hörð í tímatökunni á morgun. Mercedes og Ferrari munu líklega setja í tímatökugír og þá jafnast leikurinn. Það er því klárt að spennan mun aukast.

Jolyon Palmer gerði lítið til að þagga niður gagnrýnisraddir sem hafa heyrst um frammistöðu hans á tímabilinu. Hann missti gripið og skautaði á varnarvegg. Æfingin var stöðvuð í kjölfarið.

Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 11:50 á morgun, á Stöð 2 Sport. Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á sunnudag, á Stöð 2 Sport.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Renault: Kubica tekur ekki sæti Palmer í ár

Renault liðið í Formúlu 1 þvertekur fyrir að Robert Kubica muni taka sæti Jolyon Palmer hjá liðinu á þessu ári. Palmer hefur átt erfitt uppdráttar og Kubica hefur verið að prófa bíla liðsins að undanförnu.
Fleiri fréttir

Sjá meira