Erlent

Trump ræður nýjan starfsmannastjóra fyrir Priebus

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence, varaforseti, fylgist með þeim Trump og Priebus, þegar allt lék í lyndi þeirra á milli.
Mike Pence, varaforseti, fylgist með þeim Trump og Priebus, þegar allt lék í lyndi þeirra á milli. Vísir/GETTY
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á Twitter nú fyrir skömmu að Reince Priebus, starfsmannastjóri Hvíta hússins, væri hættur í starfi sínu. Í stað hans hefur Trump ráðið hershöfðingjann John F Kelly í starfið. Hann er fyrrverandi yfirmaður Heimavarnaáðuneytisins. Trump gaf ekki upp hvort að Priebus hafi verið rekinn eða hvort hann sagði upp.

Samkvæmt frétt CNN sagði Priebus þó upp í gær.

Priebus hefur átt undir högg að sækja undanfarna daga og hefur Anthony Scaramucci, nýr samskiptastjóri Hvíta hússins, sakað hann um að leka upplýsingum og leyndarmálum til fjölmiðla. Sögusagnir hafa verið á kreiki í marga mánuði um að staða Priebus innan Hvíta hússins hafi verið slæm.

Trump réði Priebus á sínum tíma vegna tenginga hans við Repúblikanaflokkinn, en þar var Priebus mikill innanbúðamaður.

Scaramucci sagði blaðamanni New Yorker á dögunum að Priebus yrði beðinn um að segja starfi sínu lausu.

Sjá einnig: Samskiptastjórinn jós fúkyrðum yfir samstarfsmenn í Hvíta húsinu við blaðamann



Forsetinn sagði á Twitter að Kelly væri mikill leiðtogi og sannur Bandaríkjamaður. Þá segir Trump að Kelly hafi staðið sig vel í Heimavarnarráðuneytinu og sé „stjarna“ ríkisstjórnar hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×