Erlent

Trump undirritar lög um refsiaðgerðir gagnvart Rússum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst undirrita lög um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, Írönum og Norður-Kóreu. Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins tilkynnti um þessa ákvörðun í gær, eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarp þessa efnis.

Lögin kveða meðal annars á um að forseti geti ekki fellt niður eða breytt refsiaðgerðum nema með samþykki þingsins, og var efast um að Trump myndi samþykkja það. Trump hafði sent frumvarpið aftur til þingsins með breytingartillögum en að sögn upplýsingafulltrúans hefur hann nú yfirfarið það og ætlar að undirrita lögin.

Um er að ræða refsiaðgerðir gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Þvinganirnar voru upphaflega settar á Rússa til að refsa þeim vegna innlimunar þeirra á Krímskaga í Úkraínu og síðar fyrir meint afskipti af bandarísku forsetakosningunum í fyrra.

Stjórnvöld í Kreml hafa lýst því yfir að hertar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna geri út um möguleikann á að koma samskiptum í eðlilegt horf og torvelda samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×