Formúla 1

Sebastian Vettel á ráspól í Ungverjalandi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Vettel var fljótastur í dag.
Vettel var fljótastur í dag. Vísir/Getty

Sebastian Vettel á Ferrari var fljótastur í tímatökunni fyrir Formúlu 1 kappaksturinn sem fram fer í Ungverjalandi á morgun. Kimi Raikkonen á Ferrari varð annar og Valtteri Bottas á Mercedes þriðji.

Felipe Massa gat ekki tekið þátt í tímatökunni hann var með sýkingu í innra eyranu. Paul di Resta tók sæti hans í Williams bílnum. Hann hafði þangað til tímatakan hófst, aldrei ekið Williams bílnum. Di Resta ók síðast í Formúlu 1 árið 2013 þegar hann ók fyrir Force India liðið.

Fyrsta lota
Ferrari, Red Bull og Mercedes bílarnir áttu fyrstu sex sætin í fyrstu lotunni. Hópurinn var ansi þéttur en allir ökumennirnir voru á sömu sekúndunni. Vettel var hraðastur á Ferrari.

Þeir sem féllu úr leik í fyrstu lotu voru; Sauber ökumennirnir, Williams ökumennirnir og Kevin Magnussen á Haas.

Paul di Resta fékk allt í einu tækifæri til að keyra Williams bíl Felipe Massa í dag. Það verður áhugavert að fylgjast með honum á morgun. Vísir/Getty

Önnur lota
Hamilton fór strax af stað í annarri lotu en bíllinn var ekki að svara beiðnum hans eins og hann hefði viljað. Hann kvartaði í talstöðinni yfir titring í dekkjunum. Það er afar vont í annarri lotu því tíu fljótustu ræsa á þeim dekkjum sem þeir settu hraðasta tímann í annarri lotu á. Hamilton kom aftur út til að setja hraðari tíma á öðrum dekkjum.

Báðir McLaren bílarnir komust áfram í þriðju lotu. Það færir stoðir undir þá kenningu að McLaren bíllinn virkaði vel á bautinni í Ungverjalandi.

Í annarri lotu féllu út; Romain Grosjean á Haas, Force India ökumennirnir, Daniil Kvyat á Toro Rosso og Jolyon Palmer á Renault.

Þriðja lota
Hamilton var enn í vandræðum með jafnvægið og gripið í bílnum og klúðraði sinni fyrstu tilraun í þriðju lotu. Á meðan setti Vettel hraðasta hringinn á brautinni í fyrstu tilraun þriðju lotu.

Vettel hélt sinni stöðu í harðri baráttu við liðsfélaga sinn undir lokin. Vettel náði þar með sínum öðrum ráspól á árinu og Kimi Raikkonen varð annar.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.
 


Tengdar fréttir

Daniel Ricciardo fljótastur á föstudegi

Daniel Ricciardo á Red Bull var fljótastur á báðum æfingum dagsins fyrir ungverska kappaksturinn sem fram fer um helgina. Uppfærslurnar á Red Bull bílnum greinilega að virka vel.

Renault: Kubica tekur ekki sæti Palmer í ár

Renault liðið í Formúlu 1 þvertekur fyrir að Robert Kubica muni taka sæti Jolyon Palmer hjá liðinu á þessu ári. Palmer hefur átt erfitt uppdráttar og Kubica hefur verið að prófa bíla liðsins að undanförnu.
Fleiri fréttir

Sjá meira