Viðskipti innlent

Stefnir seldi stóran hlut í Högum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Verð hlutabréfa í Högum hefur lækkað um 27 prósent frá áramótum.
Verð hlutabréfa í Högum hefur lækkað um 27 prósent frá áramótum. vísir/anton brink
Fjárfestingarsjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa minnkað verulega hluti sína í smásölufélaginu Högum á undanförnum vikum. Þannig hefur hlutabréfasjóðurinn Stefnir - ÍS 15 selt um 3,4 prósent hlutafjár í félaginu það sem af er sumri.

Sjóðurinn átti um 8,7 prósenta hlut í Högum undir lok maímánaðar, og var þá þriðji stærsti hluthafi félagsins, en samkvæmt nýjasta hluthafalistanum, frá því í lok síðustu viku, á sjóðurinn nú 5,3 prósenta hlut. Er hann nú sjötti stærsti hluthafi Haga. Eignarhluturinn er metinn á 2,37 milljarða króna miðað við gengi bréfa í Högum á föstudag.

Eins og kunnugt er hefur gengi hlutabréfa í félaginu hríðfallið á síðustu vikum og mánuðum. Alls nemur lækkunin um 27 prósentum frá áramótum. Hafa um sextán milljarðar af markaðsvirði félagsins þurrkast út eftir að bandaríski smásölurisinn Costco opnaði verslun sína í Garðabæ undir lok maí.

Annar sjóður í stýringu Stefnis, Stefnir - ÍS 5, hefur einnig minnkað hlut í Högum í sumar. Á sjóðurinn nú 1,86 prósent hlutafjár í félaginu en hlutfallið var 2,28 prósent í byrjun júnímánaðar. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×