Viðskipti innlent

Fyrrverandi knattspyrnufólk skipar nýjar stöður hjá VÍS

Haraldur Guðmundsson skrifar
Jón Ragnar Gunnarsson, Elfa Björk Erlingsdóttir og Bjarni Guðjónsson.
Jón Ragnar Gunnarsson, Elfa Björk Erlingsdóttir og Bjarni Guðjónsson.
VÍS hef­ur samkvæmt tilkynningu vátryggingafélagsins ráðið í þrjár stöður í þeim tilgangi að styrkja enn frek­ar þjón­ustu þess á fyr­ir­tækja­markaði.

Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi knattspyrnumaður og aðstoðarþjálfari Víkings  hefur verið ráðinn í starf viðskiptastjóra með áherslu á sjávarútveg í fyrirtækjaráðgjöf. Í tilkynningu VÍS segir að Bjarni sé með BS próf í viðskipta- og markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hafi starfað sem sölustjóri sjávarútvegsteymis hjá Odda en áður var hann aðalþjálfari KR og Fram í úrvaldsdeild karla og verslunarstjóri hjá Ellingsen. Bjarni er giftur Önnu Maríu Gísladóttur og eiga þau þrjú börn á aldrinum 3 - 14 ára. Hann kemur til starfa til VÍS 1. ágúst nk.

VÍS greinir einnig frá því að Elfa Björk Erlingsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, hafi verið ráðin í starf fyrirtækjaráðgjafa í fyrirtækjaráðgjöf vátryggingafélagsins. Elfa Björk er með meistarapróf í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 2009 m.a. sem ráðgjafi hjá Sjóvá Líf, ráðgjafi á tjónasviði vegna ökutækja og persónutrygginga og staðgengill fræðslustjóra. Áður vann hún hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Elfa Björk er fyrrum landsliðskona í fótbolta og spilaði í mörg ár fyrir Stjörnuna og KR. Elfa Björk er gift Sigurði Bjarna Sigurðssyni og eiga þau tvær dætur, 7 og 11 ára. Elfa Björk kemur til starfa til VÍS fyrir miðjan ágúst.

Þá hefur Jón Ragnar Gunnarsson verið ráðinn í starf viðskiptastjóra í fyrirtækjaráðgjöf.  Jón Ragnar stundaði nám við Háskóla Íslands í ensku og bókmenntum og lauk einnig kennararéttindum frá Kennaraháskóla Íslands. Jón Ragnar hefur starfað hjá Sjóvá síðustu sextán árin, síðustu sjö árin sem viðskiptastjóri á fyrirtækjamarkaði. Áður hefur Jón Ragnar starfað sem grunnskólakennari, í ferðaþjónustu sem leiðsögumaður, hjá lögreglunni í Hafnarfirði og hjá Slökkviliði Reykjavíkur. Jón Ragnar er giftur Huldu Sólveigu Jóhannsdóttur og eiga þau þrjú börn á aldrinum 11 – 17 ára.  Hann kemur til starfa til VÍS 1. ágúst nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×