Viðskipti innlent

Ríkið tók ekki ódýrasta tilboðinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ríkiskaupum og RARIK var gert að greiða Annata skaðabætur og 700 þúsund krónur í málskostnað.
Ríkiskaupum og RARIK var gert að greiða Annata skaðabætur og 700 þúsund krónur í málskostnað. vísir/gva
Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði þann 4. júlí síðastliðinn að Ríkiskaup og RARIK ohf. væru skaðabótaskyld gagnvart Annata ehf. í máli er varðaði samningskaupaferli um orkureikningakerfi.

Í nóvember 2015 hafði tveimur þátttakendum verið boðið til samningskaupaviðræðna við Ríkiskaup og RARIK ohf., annars vegar Annata og hins vegar Advania. Hinn 11. nóvember 2016 var forsvarsmönnum Annata tilkynnt að gengið hefði verið til samninga við hitt fyrirtækið, Advania ehf.

Annata kærði í byrjun desember síðastliðnum ferlið og gerði þá kröfu að ákvörðun um val á tilboði Advania yrði felld úr gildi. Tilgangur viðræðnanna var að leita eftir samningsaðila sem gæti útvegað RARIK ohf. orkureikningalausn og veitt þjónustu á sem hagstæðastan máta með tilliti til verðs og gæða. Annata átti lægsta verðtilboðið.

Samkvæmt úrskurðinum höfðu Ríkiskaup og RARIK ekki sýnt fram á að þau hafi tekið afstöðu til tilboða í samræmi við skilmála samningskaupanna, valið hagkvæmasta tilboð og þar með uppfyllt skyldu sína. Því var þeim gert að greiða Annata skaðabætur og 700 þúsund krónur í málskostnað. Hins vegar var kröfu kæranda hafnað um að fella úr gildi ákvörðun um val á tilboði Advania.

Hér má sjá úrskurðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×