Enski boltinn

Vissulega galin upphæð en Gylfi er þess virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi fagnar hér marki á EM í fyrrasumar.
Gylfi fagnar hér marki á EM í fyrrasumar. Vísir/Getty
Swansea City er búið að setja 50 milljón punda verðmiða á íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Leicester City bauð 40 milljónir punda í Gylfa en velska félagið hafnaði því. Verði Gylfi því seldur í sumar þá kemst hann í hóp dýrustu knattspyrnumanna heims.

En er okkar maður svona mikils virði? Pat Nevin, fyrrum landsliðsmaður Skota, er á því og hann rökstyður það í samtali við BBC.

„Mér finnst hann vera frábær leikmaður. 40 til 50 milljónir? Vissulega er þetta galin upphæð en Gylfi er þess virði ef hann hjálpar þér að komast í Meistaradeildina,“ sagði Pat Nevin og það fer ekkert á milli mála að hann hefur miklar mætur á íslenska landsliðsmanninum.

Gylfi hefur öðrum fremur bjargað Swansea frá falli úr ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil og það eru margir spenntir fyrir því að sjá hvað hann gæti gert fyrir lið í efri hlutanum.

„Við erum nokkrir sem teljum að þessi strákur sé mjög sérstakur leikmaður og að hann geti komið með þennan klassa inn í liðið þitt sem getur gert útslagið,“ sagði Nevin um Gylfa.

„Gylfi mun líta vel út í hvaða liði sem þú setur hann í. Hann er frábær leikmaður og að mínu mati sá hann um það upp á sitt einsdæmi að halda sínu liði í deildinni á síðasta tímabili,“ sagði Nevin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×