Erlent

„Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Samúel Karl Ólason skrifar
Feðgarnir Donald Trump og Donald Trump.
Feðgarnir Donald Trump og Donald Trump. Vísir/AFP

Donald Trump yngri hefur birt tölvupósta sem hann fékk frá hinum breska Rob Goldstone í aðdraganda fundar hans, Jared Kushner og Paul Manafort með rússneskum lögmanni sem sögð er tengjast yfirvöldum í Rússlandi í fyrra. Í póstunum segir berum orðum að fundurinn sé til að koma upplýsingum í þeirra hendur sem gætu skaðað framboð Hillary Clinton og að það sé liður í aðgerðum stjórnvalda Rússlands til að styðja framboð Trump.

Einnig segir í póstunum að lögmaðurinn sem fundaði með Trump, Kushner og Manafort væri á vegum ríkisins. Natalia Veselnitskaya þvertekur fyrir að tengjast yfirvöldum Rússlands.

New York Times ræddi við Trump yngri í dag og báðu hann um að tjá sig um tölvupóstana sem fjölmiðillinn ætlaði að birta. Í stað þess að tjá sig birti Trump póstana sjálfur með tilkynningu. Þar stóð að hann vildi birta póstana til að tryggja „gagnsæi“.

Liður í áætlun ríkisstjórnarinnar
Þar segir hann að Rob Goldstone hafi vísað til Emin og föður hans Aras Agalarov, en þeir eru gamlir viðskiptafélagar Donald Trump. Goldstone segir í póstunum að ríkissaksóknari Rússland hafi sagt Aras Agalarov að hann gæti útvegað framboði Trump opinber skjöl og gögn sem myndu koma verulega niður á Hillary Clinton og reynast Donald Trump vel.

Ríkissaksóknari Rússlands heitir Yury Yakovlevich og var skipaður af Vladimir Putin, forseta Rússlands. Samkvæmt New York Times er vitað til þess að hann og Veselnitskaya þekkist vel.

Enn fremur sagði Goldstone að um væri að ræða lið í áætlun ríkisstjórnar Rússlands að styðja við bakið á Trump og að Emin og Aras ætluðu að hjálpa til.

Trump sagði að ef þetta reyndist satt, elskaði hann það.

Yfirlýsingu Trump og póstana má sjá hér.Goldstone sagði New York Times í gær að hann Veselnitskaya hefði sjálf haft samband við Emin Agalarov og hann hefði beðið sig um að ræða við Trump fjölskylduna. Þá sagðist Goldstone ekki vita til þess að ríkisstjórn Rússlands hefði komið að málinu.

Hann skrifar þó í póstunum að umræddar upplýsingar komi frá ríkisstjórninni.

Donald Trump eldri birtist í tónlistarmyndbandi Emin Agalarov sem birt var árið 2013. Lagið tengdist Miss Universe keppninni sem þá var haldin í Moskvu. Trump birtist í lok myndbandsins.

Frásögn Trump yngri af fundinum og aðdraganda hans hefur breyst nokkrum sinnum á síðustu dögum.

AP fréttaveitan bendir á að á laugardaginn hafi hann sagt að fundurinn hefði eingöngu snúið að ættleiðingum. Degi seinna viðurkenndi hann að honum hefði verið sagt að Veselnitskaya byggi yfir skaðlegum upplýsingum varðandi Clinton.

Hann hefur einnig sagt að þegar fundurinn hófst hafi fljótt komið í ljós að hún hafi ekki búið yfir neinum upplýsingum um Clinton.


Tengdar fréttir

Rússnesk stjórnvöld hafi ætlað að hjálpa Trump

Bandaríska stórblaðið New York Times fullyrðir í frétt í dag að Donald Trump yngri, syni Bandaríkjaforseta, hafi verið sagt að upplýsingar sem rússneskur lögmaður bauð honum, væru hluti af skipulegum aðgerðum rússneskra stjórnvalda sem áttu að hjálpa föður hans að sigra forsetakosningarnar í fyrra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.