Innlent

Auki opinber gjöld á dísilvélar um áramót

Sæunn Gísladóttir skrifar
Dísel bílar voru stærsti hluti bíla sem innfluttir voru til landsins árið 2016.
Dísel bílar voru stærsti hluti bíla sem innfluttir voru til landsins árið 2016. Vísir/Getty
Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðuneytið auki álögur á notkun dísilvéla fyrir árslok 2022 til að draga úr notkun þeirra. Þetta kemur fram í drögum að áætlun til að stuðla að bættum loftgæðum á Íslandi. Áætlunin er til tólf ára.

„Það er verið að skoða þetta allt í heild. Við erum með ákvæði í stjórnarsáttmálanum um það sem við köllum samræmt kerfi grænna skatta. Við erum með hóp sem er að vinna að því til þess að þetta sé einmitt skoðað heildrænt. Fyrstu skrefin verða væntanlega að hækka kolefnisgjaldið á bensín og við erum að skoða sambærilega hækkun á dísil, þannig að það verði sem minnstur munur á dísil og bensíni,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. Vísir/Ernir
Benedikt býst við auknum álögum um næstu áramót. „Þetta er í vinnslu og ekki alveg búið að ákveða hvernig við gerum þetta allt saman. Það er verið að skoða þessa grænu skatta og reyna að setja á sem heildstæðast kerfi,“ segir Benedikt. „Við viljum beita sköttum með jákvæðum hætti og hvetja til þess að það verði notaðir hreinir orkugjafar. Það er meginatriðið í þessu.“

„Það er verið að vinna að því í fjármálaráðuneytinu að færa þetta til betri vegar eins og ábendingar Umhverfisstofnunar gefa tilefni til,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. Fjármálaráðuneytið mun þróa álögur og ívilnanir í samstarfi við umhverfisráðuneytið.

Um síðustu áramót hækkuðu skattar á hvern bensínlítra með virðisaukaskatti meira en skattar á hvern dísilolíulítra. Samtals hækkuðu skattar á hvern bensínlítra með virðisaukaskatti um 4,9 krónur. Dísilolía hækkaði hins vegar um 3,72 krónur á lítra með virðisaukaskatti. Því má segja að hvatinn til kaupa á dísilbílum hafi verið aukinn. Flestir nýir bílar sem komu á göturnar á Íslandi 2016 voru dísilbílar, eða réttur helmingur.

Dísilbílar þóttu lengi umhverfisvænni en bensínbílar þar sem þeir gefa frá sér minna magn gróðurhúsalofttegunda en bensínbílar. Útblástur frá dísilbílum er þó talinn bæði krabbameinsvaldandi og skaðlegur lungnastarfsemi fólks. Víða erlendis hefur verið unnið að því að draga úr því að almenningur kaupi díselbíla, meðal annars í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×