Íslenski boltinn

Staðan á toppnum í Inkasso-deildinni óbreytt | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þróttarar fagna.
Þróttarar fagna. vísir/ernir
Þrjú efstu liðin í Inkasso-deildinni unnu öll sína leiki þegar 11. umferðin fór fram í kvöld.

Fylkir er áfram á toppi deildarinnar eftir 1-2 sigur á ÍR í Mjóddinni.

Emil Ásmundsson kom Fylkismönnum yfir á 6. mínútu en Viktor Örn Guðmundsson jafnaði metin á þeirri tuttugustuogfyrstu. Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks varð Jón Arnar Barðdal fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

ÍR er í 10. sæti deildarinnar með 11 stig, fjórum stigum frá fallsæti.

Keflavík hélt 2. sætinu með 3-1 sigri á HK suður með sjó. Þetta var sjötti sigur Keflvíkinga í röð.

Jeppe Hansen skoraði tvö mörk fyrir Keflavík en Daninn er nú kominn með sjö mörk í Inkasso-deildinni. Reynir Már Sveinsson minnkaði muninn á 81. mínútu, þá nýkominn inn á sem varamaður, en aðeins mínútu síðar skoraði Sigurbergur Elísson þriðja mark Keflavíkur og gulltryggði sigur þeirra.

HK er í 9. sæti deildarinnar með 12 stig, fimm stigum frá fallsæti.

Viktor Jónsson var hetja Þróttar þegar liðið lagði Fram að velli á Eimskipsvellinum í Laugardalnum.

Guðmundur Magnússon kom Fram yfir á 17. mínútu en tvö mörk frá Viktori tryggðu Þrótti stigin þrjú.

Þróttur er í 3. sæti deildarinnar með 23 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Fylkis. Fram, sem hefur tapað báðum leikjunum undir stjórn Portúgalans Pedro Hipolito, er dottið niður í 7. sætið.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Mjóddinni og Laugardalnum og tók myndirnar sem má sjá hér að neðan.

Reynsluboltinn Kristján Örn Sigurðsson tryggði Þór öll þrjú stigin gegn Leikni F. fyrir norðan. Þetta var fimmti sigur Þórsara í síðustu sex leikjum en þeir eru í 4. sæti deildarinnar.

Gunnar Örvar Stefánsson kom Þór yfir 21. mínútu en Jesus Guerrero Suerez jafnaði metin á 71. mínútu. Þegar mínúta var til leiksloka skoraði Kristján Örn svo sigurmark heimamanna.

Leiknismenn eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig, tveimur stigum á undan botnliði Gróttu sem tapaði 1-3 fyrir Leikni R. á heimavelli.

Grótta komst yfir með marki Viktors Smára Segatta en tvö mörk frá Kolbeini Kárasyni og eitt frá Tómasi Óla Garðarssyni tryggðu Leikni sigurinn. Breiðhyltingar eru með 14 stig í 8. sæti deildarinnar.

Þá unnu Haukar 2-1 sigur á Selfossi á Ásvöllum. Daníel Snorri Guðlaugsson skoraði bæði mörk Hauka sem eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar.

James Mack skoraði mark Selfyssinga sem eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum og dottnir niður í 6. sætið.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×