Körfubolti

Körfuboltastrákarnir mæta vel klæddir á EM í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hauksson hjá Föt & Skóm, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson verslunarstjóri Herragarðsins, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Alvaro Calvi yfirmaður sérsaums í Herragarðinum.
Hermann Hauksson hjá Föt & Skóm, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson verslunarstjóri Herragarðsins, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Alvaro Calvi yfirmaður sérsaums í Herragarðinum. Mynd/KKÍ
Það er komin hefð fyrir því að íslensku landsliðin mæti vel klædd til leiks á stórmót og körfuboltalandslið karla ætlar ekki að vera nein undantekning.

KKÍ og Herragarðurinn hafa gert með sér samkomulag þess efnis að leikmenn karlalandsliðs Íslands í körfubolta klæðist sérsaumuðum jakkafötum frá Herragarðinum í tilefni þess að liðið er á leið á Eurobasket.

Strákarnir unnu það glæsta afreka að komast á lokamót annað mótið í röð. Samkvæmt samkomulaginu mun Herragarðurinn útvega leikmönnum og þjálfurum jakkaföt sem þeir munu klæðast fyrir leiki og við sérstök tilefni á leiðinni og m.a. þegar haldið verður til Finnlands í lok ágúst.

 

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ: „Það er margt sem þarf að hugsa um þegar farið er á stórmót sem þetta og við erum gríðarlega ánægðir með að fá strákana í Herragarðinum til að liðsinna okkur við þetta verkefni, enda ekki hlaupið að því að fá jakkaföt á marga af okkar landsliðsmönnum. Við lögðum því verkefnið til fagmanna og Herragarðsmenn auðvitað þeir fyrstu sem koma í huga og komu þeir sterkir inn með hönnun og útlit á fötum sem okkur leist mjög vel á,“ sagði Hannes í fréttatilkynningu frá KKÍ.

 

Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, verslunarstjóri Herragarðsins: „Við erum afar stoltir af því að KKÍ hafi falið okkur þetta verkefni að klæða þessa stóru og stæðilegu stráka í föt frá okkur. Við vitum af fenginni reynslu af landsliðinu í knattspyrnu að flott umgjörð í kringum liðið skiptir miklu máli og því var tilvalið að leggja hönd á plóg þegar sambandið leitaði til okkar,“ sagði Vilhjálmur S. Vilhjálmsson.

„Það er ekki hlaupið að því fyrir marga í liðinu að fá á sig föt sem passa og við leysum það verkefni með ánægju. Það sem um er að ræða eru sérsaumuð jakkaföt frá línu okkar Herragarðurinn - sérsaumur sem hefur verið þjónusta sem hefur notið gríðarlegra vinsælda. Auk þess fá leikmenn skyrtur og bindi sem passa við. Það verður gaman að sjá strákana mæta á mótið vel klæddir, enda stórkostlegur árangur að Ísland sé að mæta á stórmót af þessum toga. Það má því segja að Herragarðurinn klæði landsliðið vel,“ sagði Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×