Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Víkingur í Götu 1-1 | FH-ingar urðu að sætta sig við jafntefli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Steven Lennon umkringdur Víkingum.
Steven Lennon umkringdur Víkingum. vísir/stefán
FH-ingar urðu að sætta sig við jafntefli við Víking í Götu frá Færeyjum í Kaplakrika í kvöld í annari umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið var mun sterkari aðilinn allan leikinn en vítaspyrna á 73. mínútu réði úrslitum. Útivallarmark fyrir Færeyingana og erfið staða fyrir FH fyrir seinni leikinn.

Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur í Hafnarfirðinum í kvöld. FH-ingar áttu hættulegri færi og settu þeir boltann í netið á 13. mínútu. Það mark var hins vegar réttilega dæmt af, Steven Lennon handlék knöttinn áður en hann smellti honum í markið.

Þeir fengu svo dauðafæri fimm mínútum seinna þegar Halldór Orri Björnsson er dauðafrír inn í teignum en skallar boltann beint á Elias Rasmussen í markinu sem ver hann í slánna.

Undir lok fyrri hálfleiks munaði svo engu að Víkingar gerðu sjálfsmark, boltinn berst inn í teig og fer af varnarmanni Víkinga og í stöngina. Tréverkið aftur að neita FH-ingum um mark.

Hafnfirðingar voru ekki lengi að koma sér í gang í seinni hálfleik. Á 49. mínútu tekur Steven Lennon eina af fjölmörgu hornspyrnum FH-inga, boltinn berst inn í teig og á kollinn á Emil Pálssyni sem skallar hann í markið. Verðskuldað 1-0 fyrir FH.

Það bar svo til tíðinda á 72. mínútu þegar Víkingar komast í góða skyndisókn, boltinn berst á Vasile Anghel og Pétur Viðarsson tæklar hann niður inni í teig FH-inga. Pétur fékk að líta gula spjaldið og réttilega dæmt víti.

Adeshina Lawal settti boltann af öryggi í netið, sendir Gunnar Nielsen í vitlaust horn.Þar við sat og lokatölur leiksins 1-1. FH-ingar mjög óheppnir að missa leikinn niður í jafntefli og gera ferð sína til Færeyja mun erfiðari. Þeir voru sterkari aðilinn allan leikinn en það var lítið um opin færi þó þeir hefðu átt mörg ágætis hálf-færi.

Nú þurfa FH-ingar að fara til Færeyja og sækja á þriðjudaginn eftir viku. Víkingur er kominn með útivallarmark og það þýðir að FH verður að skora ef þeir ætla sér lengra í þessari keppni. Ljóst að Færeyingarnir munu sitja aftarlega, þeir voru mjög aftarlega í þessum leik og má búast við að þeir pakki enn meira saman í seinni leiknum þar sem markalaust jafntefli fleytir þeim áfram.

Steven Lennon var mjög sterkur sóknarlega fyrir Hafnfirðinga, barðist vel fram á við. Fyrirliðinn Davíð Þór Viðarsson átti mjög góðan leik á miðjunni sem og Emil Pálsson. Kristján Flóki Finnbogason var sást hins vegar lítið í leiknum.

Heimir og félagar á bekknum.vísir/ernir
Heimir Guðjóns: Staðan er 50/50

Fyrstu viðbrögð Heimis Guðjónssonar, þjálfara FH, eftir leikinn voru vonbrigði en gleði í sjálfu sér. „Vonbrigði að fá ekki meira út úr leiknum, við spiluðum mjög vel að mínu mati. Fengum töluvert af góðum færum og skoruðum gott mark, en misstum einbeitinguna í föstu leikatriði,“ sagði Heimir.

„Eftir þennan leik getum við verið bjartsýnir, ef við spilum seinni leikinn vel þá tel ég okkur eiga góða möguleika. Staðan er svona 50/50. Við þurfum að spila tvo góða leiki og verðum að eiga góðan leik á þriðjudaginn ef við ætlum að eiga möguleika á að komast áfram.“

Aðspurður hversu mikla áherslu þjálfarinn leggi á þátttöku í Evrópu sagði Heimir: „Við viljum alltaf standa okkur vel í Evrópukeppni og komast lengra. Það er mikið í húfi fyrir klúbbinn að komast í næstu umferð, þá fáum við fjóra leiki í viðbót og það er að sjálfsögðu stefnan.“

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.vísir/anton
Davíð Þór: Pétur ætlaði að taka boltann, en Færeyingurinn var aðeins á undan

„Svekkelsi að hafa ekki klárað þetta, við vorum sterkari aðilinn allan leikinn. Það er virkilega svekkjandi að hafa fengið þetta mark á sig,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH. Hann metur stöðuna góða fyrir næsta leik. „Við sýndum það að við erum með sterkara lið. Það þýðir ekkert fyrir okkur að fara á taugum, það eru 90 mínútur eftir. Miðað við hvernig við spiluðum í dag þá eru sannarlega færi til að skora fleiri mörk. Ég hef fulla trú á því að við klárum dæmið í Færeyjum ef við náum að spila eins og við gerðum í dag.“

„Það kom langur bolti fram, þar var einhver hlaupandi sem vann skallaeinvígið og boltinn einhvern veginn skoppar asnalega svo Pétur nær ekki að hreinsa og fær hann í sig og fær mann á blindu hliðina. Svo er hann að sjálfsögðu að reyna að taka boltann en Færeyingurinn var aðeins á undan.“ Svona lýsti fyrirliðinn jöfnunarmarki Færeyinganna. Lítið sem Pétur Viðarsson gat gert í stöðunni, en mjög svekkjandi að fá dæmda vítaspyrnu.

„Við viljum að sjálfsögðu fara langt í þessari keppni, þetta eru skemmtilegustu leikrinir til að spila á hverju sumri.“

Emil Pálsson.
Emil Páls: Þetta verður alveg eins úti

Markaskorarinn Emil Pálsson gat ekki sagt annað en FH-ingar væru hundsvekktir eftir jafnteflið. „Þeir lágu mjög aftarlega og voru mjög þéttir, en við vorum að skapa okkur færi. Virkilega klaufalegt að hafa fengið á okkur þetta víti, en þetta er bara hálfnað og við tökum bara leikinn úti.“ sagði Emil.

„Þetta verður alveg eins úti, held ég. Þeir eru að fara að liggja aftarlega og treysta á skyndisóknir. Við þekkjum aðeins meira inn á þá núna og ég held við eigum klárlega eftir að taka þá úti, það verður skemmtilegur leikur.“



vísir/stefán

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira