Erlent

Myndin tekin tveimur árum áður en Earhart hvarf

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin umdeilda.
Myndin umdeilda. Vísir/AFP
Umdeild ljósmynd sem á að sýna flugkonuna Ameliu Earhart og Fred Noonan í haldi Japana á Jaluit-rifi í Marhsall eyjaklasanum árið 1937 var tekin tveimur árum áður. Myndin birtist í ferðabók sem gefin var út í Japan árið 1936. Þetta segir Kota Yamano, en hann fann myndina í Þjóðskjalasafni Japan.



History Channel birti um helgina þátt þar sem því var haldið fram að umrædd mynd hefði fundist á Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna.

Earhart hvarf árið 1937 þegar hún reyndi að fljúga hringinn í kringum jörðina.

Síðast heyrðist til Earhart þann 2. júlí 1937 þegar hún var að reyna að fljúga hringinn í kringum heiminn ásamt Fred Noonan. Þau voru þá á flugi yfir Kyrrahafinu og er talið að þau hafi brotlent. Árið 1939 voru þau svo úrskurðuð látin, en líkamsleifar þeirra hafa þó aldrei fundist né flugvélin. Earhart var rétt tæplega 40 ára gömul þegar hún hvarf.

Sjá einnig: Lést Amelia Earhart í haldi Japana?



Í Þjóðskjalasafni Japan stendur ekkert við myndina um hverjir eru á henni, en hins vegar stendur að höfnin iði af lífi þegar mánaðarleg siglingakeppni innfæddra stendur yfir.

Yamano segir samkvæmt Guardian að það hafi eingöngu tekið hann um hálftíma að fullvissa sig um að helstu rök History Channel þáttarins væru rugl.

Hann fletti upp leitarorðinu Jaluit-rif og stillti leitina á tíu ár fram í tímann frá 1930. Myndin var sú tíunda sem birtist.

Samsæriskenningar

Í þætti History Channel var því ekki eingöngu haldið fram að á myndinni væru þau Earhart og Noonan og það hefði verið svo til gott sem sannað. Heldur var því einnig haldið fram að stjórnvöld í Washington hefðu vitað af því að þau hefðu verið handsömuð.

Hún hefði mögulega „verið fyrsta fórnarlamb seinni heimsstyrjaldarinnar“.

Margar kenningar um örlög Earhart og Noonan hafa litið dagsins ljós í gegnum tíðina. Sú sem þykir líklegust er að á leið til Howlandeyju hafi þau villst, orðið eldsneytislaus og brotlent í Kyrrahafi.

Önnur kenning er að þau hafi brotlent á Nikumaroro-rifi og dáið þar. Beinagrind fannst á rifinu árið 1940, en læknar sögðu að um karlmann hefði verið að ræða. Þá mun einnig hafa fundist kassi með förðunarbúnaði á rifinu.

Kenningin um að Earhart og Noonan hafi verið handsömuð af Japönum er ekki ný af nálinni og þessi nýja mynd þykir ekki líkleg til að varpa frekari ljósi á örlög þeirra.


Tengdar fréttir

Lést Amelia Earhart í haldi Japana?

Gömul mynd sem fannst nýlega í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna er sögð gefa í skyn að frægasti kvenkyns flugmaður sögunnar, Amelia Earhart, hafi ekki dáið í flugslysi í Kyrrahafinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×