Körfubolti

Snæfellskonur endurheimta Íslandsmeistarakana og mikinn Íslandsvin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristen Denise McCarthy með íslenska fánann á landsleik í Ungverjalandi.
Kristen Denise McCarthy með íslenska fánann á landsleik í Ungverjalandi. Vísir/ÓskarÓ
Kristen Denise McCarthy hefur skrifað undir samning um að spila með Snæfelli í Domino´s deild kvenna í körfubolta á næsta tímabili.

McCarthy er að koma aftur í Stykkishólm eftir tveggja ára fjarveru þar sem hún hefur spilað í Rúmeníu og Þýskalandi.

„Það er með miklu stolti sem körfuknattleiksdeild Snæfells tilkynnir samning Kristen sem er til eins árs,“ segir í frétt á fésbókarsíðu Snæfells.

Kristen var frábær með Snæfellsliðinu tímabilinu 2014-15 en hún var þá með 28,2 stig, 12,8 fráköst og 3,2 stoðsendingar í leik. Hún er framherji að upplagi en hún er mjög fjölhæfur leikmaður og öflugur liðsmaður.

„Kristen er okkur Snæfellsfjölskyldunni vel kunnug en hún hefur haldið miklu og góðu sambandi við leikmenn, þjálfara og stjórnarfólk eftir að hún lék hérna og heimsótt liðið marg oft,“ segir ennfremur í fréttinni.

McCarthy hefur meðal annars komið til móts við íslenska landsliðið þegar liðið hefur verið að keppa erlendis og hefur aldrei farið leynt með hrifningu sína af Íslandi.

Snæfellsliðið hefur alltaf fengið til sín leikstjórnanda eftir að Hildur Sigurðardóttir lagði skóna á hilluna en nú er breyting á því. Þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson mun því treysta á íslenskan leikstjórnanda á komandi tímabili.

Kristen Denise McCarthy með Íslandsbikarinn 2015.Vísir/ÓskarÓ
Kristen Denise McCarthy með Gunnari Svanlaugssyni formanni og Inga Þór Steinþórssyni þjálfara Snæfells.Vísir/ÓskarÓ

Tengdar fréttir

Ég elska Snæfell og elska að vera í þessum bæ

Snæfell varð Íslandsmeistari í körfubolta kvenna annað árið í röð eftir sigur á Keflavík í lokaúrslitunum, 3-0. Liðið vann með minnsta mun, 81-80, í Stykkishólmi í gær við ærandi fögnuð heimamanna í Hólminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×