Menning

Litlar kaldhæðnar melódíur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Það er ágætt að leiðsegja en skemmtilegra að semja, segir tónskáldið Atli.
Það er ágætt að leiðsegja en skemmtilegra að semja, segir tónskáldið Atli. Vísir/Pjetur
„Það sem verður spilað eftir mig í kvöld eru lag og eftirmáli úr leikriti sem verður frumsýnt hér á landi í október í haust undir heitinu Annarleikur,“ segir Atli Ingólfsson tónskáld um framlag sitt til tónleika Caput tríós í Iðnó í kvöld sem hefjast klukkan 20.30.

Hann segir lögin litlar kaldhæðnar melódíur og mjög leikhúslegar. „Ég vona að fólk hafi gaman af að heyra þær, sjálfur verð ég ekki viðstaddur því ég er fyrir norðan.“

Í ljós kemur að hann er leiðsögumaður ítalsks ferðahóps og staddur við Mývatn þegar hann svarar símanum. „Ég tek tvo hringi um landið á sumri. Það er ágætt, samt er skemmtilegra að semja,“ viðurkennir hann. Segir þó tímann til tónsmíða hafa minnkað eftir að hann gerðist prófessor við Lista­háskólann.

Lögin tvö sem Atli nefndi í upphafi eru úr leiksýningu sem frumflutt var úti í Svíþjóð 2012. Hann kveðst hafa samið þrjú tónleikhúsverk sem sett hafi verið upp þar í landi, Annarleikur verði það fyrsta hér á Íslandi.

„En ég er nýbúinn að útsetja lögin fyrir þá hljóðfæraskipan sem félagarnir eru með,“ segir hann og á þar við Daníel Þorsteinsson píanóleikara, Sigurð Halldórsson sellóleikara og Guðna Franzson klarínettuleikara sem koma fram í Iðnó í kvöld og lofa að leika áheyrilega og sumarlega efnisskrá. Þessi sama þrenning hélt tónleika í Katuaq, listamiðstöðinni í Nuuk á Grænlandi, í nóvember síðastliðnum.

Aðgangseyrir er 2.500 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×