Viðskipti erlent

Ný Tinder-uppfærsla gerir notendum kleift að sjá fyrir fram hverjir „svæpa“ til hægri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tinder er eitt af vinsælustu stefnumótasmáforritum heims.
Tinder er eitt af vinsælustu stefnumótasmáforritum heims. Vísir/Getty
Ný uppfærsla á stefnumótasmáforritinu Tinder býður notendum, sem greiða fyrir þjónustuna, að sjá hverjir hafa „svæpað“ til hægri áður en þeir „svæpa“ sjálfir.

Tinder-notendur í makaleit fá upp myndir af öðrum vænlegum notendum á snjallsímaskjái sína, sem þeir annað hvort „svæpa“ til hægri ef þeim hugnast viðkomandi en til vinstri ef þeir hafa ekki áhuga. Ef báðir aðilar „svæpa“ til hægri verður til svokölluð „samsvörun“ eða „match“ og þá opnast möguleiki fyrir samskipti á milli notendanna tveggja.

Hingað til hefur Tinder ekki boðið upp á að fólk geti séð fyrir fram hvaða notendur hafa „svæpað“ til hægri. Þetta hefur aðeins verið hægt að staðfesta ef báðir aðilar eru jákvæðir í garð hins og úr verður áðurnefnd „samsvörun“.

Nú verður hins vegar breyting þar á en Tinder býður notendum að sjá lista yfir fólk sem hefur rennt til þeirra hýru auga í smáforritinu, áður en notendurnir gera sjálfir upp hug sinn. Aðeins verður þó boðið upp á uppfærsluna gegn greiðslu en grunnþjónusta Tinder er ókeypis.

Uppfærslan verður fyrst tekin í notkun í Argentínu, Ástralíu, Kanada og Mexíkó. Þá bindur fyrirtækið vonir við að henni verði hleypt af stokkunum um allan heim á næstu misserum.

Tinder hefur notið gríðarmikilla vinsælda síðan forritið kom út árið 2012. Síðustu útgefnu tölur yfir notendur gera ráð fyrir að um 50 milljónir manna í makaleit hafi halað smáforritinu niður í snjalltæki sín.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×