Enski boltinn

Leicester Mercury: Gylfi vill frekar fara til Everton en til Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mun Gylfi Þór Sigurðsson spila í bláu með bæði félagsliði og landsliði?
Mun Gylfi Þór Sigurðsson spila í bláu með bæði félagsliði og landsliði? Vísir/Getty
Staðarblaðið í Leicester, Leicester Mercury, segir að Gylfi Þór Sigurðsson muni velja Everton en bæði Everton og Leicester City hafa sýnt mikinn áhuga á íslenska landsliðsmanninum.

Bæði Leicester City og Everton hafa boðið 40 milljónir punda í Gylfa en Swansea City hafnaði báðum tilboðum og vill fá 50 milljónir punda.

Forráðamenn Everton eru enn bjartsýnir á það að ná samkomulagi um kaupverðið og Gylfi sjálfur ákvað að sleppa því að fara í æfingaferð til Bandaríkjanna með Swansea.

Gylfi hætti við að fara í kjölfarið að það fréttist af því að Everton hefði boðið 40 milljónir punda í hann.

Samkvæmt heimildum blaðamanns Leicester Mercury þá er Gylfi hrifinn af því sem Everton hefur verið að gera á félagsskiptamarkaðnum þrátt fyrir að félagið hafi selt Romelu Lukaku til Manchester United.

Everton hefur endurheimt Wayne Rooney eftir 13 ár og þá hefur liðið einnig keypt markvörðinn Jordan Pickford frá Sunderland, varnarmanninn Michael Keane frá Burnley, sóknarmiðjumanninn Davy Klaassen frá Ajax og framherjann Sandro Ramírez frá Malaga.

Stuðningsmenn Leicester City verða fyrir vonbrigðum þegar þeir lesa þessa frétt í Leicester Mercury því í könnun meðal þeirra kom í ljós að Gylfi var einmitt maðurinn sem flestir vildu fá til liðsins í sumar. Meira en fimm þúsund stuðningsmenn Leicester City tóku þátt í þessari skoðunarkönnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×