Bíó og sjónvarp

Íslendingur yfirmaður leikmyndar í stórmyndinni Dunkirk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eggert Ketilsson var yfirmaður leikmyndar kvikmyndarinnar Dunkirk.
Eggert Ketilsson var yfirmaður leikmyndar kvikmyndarinnar Dunkirk. IMDB

Eggert Ketilsson, leikmyndahönnuður og brellusérfræðingur, er yfirmaður leikmyndar í stórmyndinni Dunkirk sem frumsýnd verður hér á landi þann 19. júlí næstkomandi.

Kvikmyndin Dunkirk, sú nýjasta úr smiðju leikstjórans Christopher Nolan, fjallar um „Operation Dynamo,“ brottflutning hermanna Bandamanna við Dunkirk í Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni. Hún var tekin upp í fyrrasumar, bæði við Dunkirk og í Los Angeles, en Eggert Ketilsson vann að leikmynd kvikmyndarinnar.

Eggert hefur komið víða við í kvikmyndabransanum, bæði hér- og erlendis, ef eitthvað má marka IMDB-síðu hans. Hann hefur meðal annars unnið að brellugerð (e. special effects) við kvikmyndirnar Transformers: The Last Knight, Star Wars: The Force Awakens og Rouge One úr Stjörnustríðsseríunni, Thor: The Dark World og Journey to the Center of the Earth.

Þá hafði hann yfirumsjón með leikmynd og öðrum sjón- og listrænum þáttum (e. art director) í kvikmyndinni Dunkirk og þáttaröðunum Sense8 og Halo: Nightfall.

Dunkirk var heimsfrumsýnd í gær en með helstu hlutverk fara Fionn Whitehead, Tom Glynn-Carney, Harry Styles, Cillian Murphy og Tom Hardy.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira